21. Mar. 2024

Þjóðleikhúsið auglýsir eftir leikverkum fyrir skólahópa

Þjóðleikhúsið þróar reglulega nýjar leiksýningar fyrir ungt fólk og býður hópum skólabarna um land allt að sjá leiksýningar og kynnast töfraheimi leikhússins. Nú er komið að því að skapa nýja sýningu fyrir miðstig grunnskóla og í því skyni kallar Þjóðleikhúsið eftir hugmyndum að leikverkum.

Þjóðleikhúsið auglýsir nú 
eftir hugmyndum að sýningu sem hentar fyrir miðstig grunnskóla (10-12 ára). Verkið skal vera samið fyrir 2 eða 3 leikara og vera um 50 mínútur að lengd. Umgjörð sýningarinnar skal vera einföld, svo mögulegt sé að ferðast með hana um landið og sýna í ólíkum rýmum. Gjarnan má gera ráð fyrir tónlist í verkinu, en það er ekki skilyrði. Miðað er við að sýningin geti verið sýnd aftur, á ólíkum leikárum, og að ólíkir leikarar úr leikhópi Þjóðleikhússins geti leikið hana.


Í lýsingu á hugmynd að leiksýningu (2-3 bls.) skal koma fram persónufjöldi, atburðarás, ætlunarverk höfundar og sýn á vinnuaðferðir við þróun sýningar. Einnig lýsing á sýn höfundar á þennan aldurshóp (5.-7. bekkur) og hvers vegna hugmyndin henti hópnum. Gjarnan má nefna hugmyndir um listafólk (tiltekna einstaklinga eða eiginleika). Umsókn skal fylgja sýnishorn af leiktexta (2-5 bls.) og stutt ferilskrá höfundar (1 bls.). Sú hugmynd sem verður fyrir valinu verður þróuð áfram innan leikhússins í samstarfi við dramatúrga og listafólk hússins. Stefnt er að því að sýningin verði æfð í mars og apríl 2025, og frumsýnd í apríl. 

Í nýrri stefnu Þjóðleikhússins segir m.a.:  

  • Við viljum skapa kraftmiklar, vandaðar og skemmtilegar sýningar fyrir börn og ungt fólk sem glæða áhuga á leikhúsi. 
  • Við viljum velja verk sem eiga ríkt erindi við samtímann og sífellt fjölbreyttara samfélag. 
  • Við viljum ná reglulega til allra barna á skólagöngu þeirra með leiksýningum sem tala til þeirra. 
  • Þjóðleikhúsið vinnur að því að öll börn sem útskrifast úr grunnskóla hafi a.m.k.  þrisvar á skólagöngu sinni, á ólíkum námsstigum, séð leiksýningu á vegum Þjóðleikhússins.  

Hér má lesa stefnu leikhússins. 

Höfundar og leikhúslistafólk af öllum kynjum og mismunandi uppruna eru hvött til að senda inn hugmynd. Laun eru í samræmi við gildandi kjarasamninga leikhússins.   

Umsóknum skal skilað í gegnum umsóknarkerfi á vefsíðu Þjóðleikhússins, leikhusid.is. Nánari upplýsingar á leikritun@leikhusid.is. Tekið er við leikritum hjá Þjóðleikhúsinu allt árið og þau lesin og metin jafnóðum, en umsóknarfrestur vegna þessarar auglýsingar er til og með 15. apríl 2024.

 Umsóknarform

Úr sýningunni Oddur og Siggi sem sýnd var fyrir miðstig grunnskóla á sínum tíma

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími