Taktu flugið beibí og Fúsi fá Hvatningarverðlaun ÖBÍ
ÖBÍ réttindasamtök veittu tveimur leikverkum Hvatningarverðlaunin á Grand hóteli á alþjóðadegi fatlaðs fólks fyrr í vikunni. Handhafar verðlaunanna í ár eru Fúsi, aldur og fyrri störf og Taktu flugið, beibí sem Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir skrifaði og lék í, undir leikstjórn Ilmar Stefánsdóttur hér í Þjóðleikhúsinu.
Halla Tómasdóttir forseti afhenti verðlaunin og minnti í ávarpi sínu á mikilvægi kærleikans. Hún sagðist jafnframt vonast til þess að næsta ríkisstjórn haldi málaflokki fatlaðs fólks á lofti. Við óskum Kolbrúnu og Fúsa innilega til hamingju!
Sýningin Taktu flugið, beibí, eftir Kolbrúnu Dögg, vakti gríðarlega mikla athygli þegar hún var frumsýnd síðastliðið haust. Sögupersónan leiddi okkur í gegnum líf sitt sem manneskja með líkamlega skerðingu sem ágerist með aldrinum. Í fallegu, hvetjandi og áhrifamiklu verki, þar sem tónlist, myndlist og dansi er fléttað saman við frásögnina, fylgjumst við með baráttu fyrir framtíð, sjálfstæði og réttindum, og leit að ást og tengslum. Taktu flugið, beibí er einstök saga sem á erindi við okkur öll, saga um framtíðardrauma, ást, fjölskylduna, baráttu og sigra. Leikritið byggir á persónulegri reynslu og lífshlaupi höfundarins, Kolbrúnar Daggar, sem tók sjálf þátt í sýningunni. Hún hefur lokið námi af sviðshöfundabraut LHÍ og meistaranámi í ritlist við HÍ, og er þetta fyrsta leikverk hennar sem sett er á svið í atvinnuleikhúsi.
Nánar um sýninguna