Stormur – nýr söngleikur eftir Unni Ösp og Unu Torfadóttur frumsýndur á Stóra sviðinu
Fimmtudaginn 6. mars frumsýnir Þjóðleikhúsið á Stóra sviðinu söngleikinn Storm eftir Unni Ösp Stefánsdóttur og Unu Torfadóttur. Öll tónlist verksins er eftir Unu. Söngleikurinn talar til ólíkra kynslóða um fyrstu stóru tímamót lífsins. Vinahópur sem er að útskrifast úr menntaskóla stendur á tímamótum sem eru í senn spennandi og ógnvænleg. Fjöldi nýrra leikara tekur þátt í sýningunni ásamt nokkrum eldri og reyndari úr leikhópi Þjóðleikhússins. Í söngleiknum verður mikið um þekkta tónlist Unu en einnig ný lög.
Stórbrotin ástarsaga, mögnuð tónlist, undurfögur augnablik
Fyrri leikverk Unnar Aspar í Þjóðleikhúsinu, verðlaunaverkin Vertu úlfur og Saknaðarilmur, hafa hreyft rækilega við leikhúsgestum og heillað þá, en í þeim hefur hún beint sjónum að mikilvægum málefnum í samtíma okkar. Nú vinnur hún með einni fremstu tónlistarkonu landsins af ungu kynslóðinni, Unu Torfadóttur og þær semja í sameiningu nýjan söngleik sem fjallar á beinskeyttan hátt um ungt fólk á Íslandi í dag. Stórvinsæl lög Unu Torfa hljóma í bland við ný og grípandi lög.
Hver er ég og hver vil ég vera? Get ég sagt skilið við fortíðina og byrjað lífið upp á nýtt? Þori ég að taka stökkið og fylgja hjartanu, alla leið?
Tónlistin blanda af nýjum og þekktari lögum Unu Torfa
Una Torfadóttir kom eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir tveimur árum. Hver smellurinn á fætur öðrum hefur náð miklum vinsældum og hrifið fólk á öllum aldri. Nýjasta plata hennar, Sundurlaus samtöl, hefur fengið frábærar viðtökur. Í söngleiknum verður mikið um þekkta tónlist Unu en einnig ný lög. Nú fær fyrsta nýja lagið úr verkinu að hljóma og það er sannkallaður stuðslagari Málum miðbæinn rauðan.
Ný andlit á sviði. Þar af þrír nýútskrifaðir bekkjarfélagar úr LHÍ
Leikhópurinn í Stormi er fersk blanda af nýjum andlitum og reyndari leikurum úr leikhópi Þjóðleikhússins. Þau Jakob von Oosterhout og Berglind Alda Ástþórsdóttir stíga sín fyrstu skref saman í atvinnuleikhúsi í þessu spennandi verkefni. Bekkjarsystir þeirra Birta Sólveig Söring Þórisdóttir tók þátt í uppsetningu LA á Litlu hryllingsbúðinni en kemur nú fram í Þjóðleikhúsinu í fyrsta sinn. Það gera einnig þær Salka Gústafsdóttir en hún útskrifast nú í vor úr leikaranámi, og Iðunn Ösp Hlynsdóttir en hún hefur nám næsta haust. Marinó Máni Mabazza hefur talsverða reynslu af danshlutverkum í uppsetningum Borgarleikhússins og víðar. Þau Hallgrímur Ólafsson, Kjartan Darri Kristjánsson, Hildur Vala Baldursdóttir og Sigurbjartur Sturla Atlason eru ung að árum en tilheyra engu að síður hópi eldri og reyndari leikara í þessari stórskemmtilegu uppsetningu.
Hljómseitina skipa:
Hafsteinn Þráinsson
Hljómsveitarstjórn, gítar
Sólrún Mjöll Kjartansdóttir
Trommur, slagverk
Tómas Jónsson
Píanó, hljóðgervill og Rhodes
Vignir Rafn Hilmarsson
Bassi og hljóðgervill
Valgeir Skorri Vernharðsson
Trommur, slagverk (staðgengill)
Baldvin Hlynsson
Píanó, hljóðgervill og Rhodes (staðgengill)
Listrænir stjórnendur
Leikstjórn: Unnur Ösp Stefánsdóttir
Dans og sviðshreyfingar: Lee Proud
Tónlistarstjórn: Hafsteinn Þráinsson
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Lýsing og myndband: Ásta Jónína Arnardóttir
Hljóðblöndun: Þóroddur Ingvarsson
Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson, Hafsteinn Þráinsson
Dramatúrg: Matthías Tryggvi Haraldsson