Sögumaðurinn Einar Kárason stígur á svið í Þjóðleikhúsinu
Frumsýning á Stormfuglum í Leikhúskjallaranum annað kvöld
Einar Kárason frumsýnir sýningu sína Stormfugla í Þjóðleikhúskjallaranum annað kvöld. Þar flytur hann magnaða sögu um afdrif íslenskra sjómanna sem lenda í aftakaveðri úti fyrir Nýfundnalandi. Sýningin byggist á samnefndri bók Einars sem kom út árið 2018 og fékk frábærar viðtökur.
Einar Kárason er einn vinsælasti rithöfundur þjóðarinnar og hefur slegið í gegn sem sagnamaður með sýningum sínum á Söguloftinu í Landnámssetrinu og víðar. Hér flytur hann okkur átakamikla sögu sem hann gerði skil í bók sinni Stormfuglum sem kom út árið 2018.
Stormfuglar er áhrifamikil saga um örvæntingarfulla baráttu íslenskra sjómanna við miskunnarlaus náttúruöfl, á síðutogara sem lendir í aftakaveðri vestur undir Nýfundnalandi. Togarinn hleður á sig ísingu í nístandi frosti og ofsaroki, og klakabrynjan er við það að sliga drekkhlaðið skipið. Frá miðunum í kring berast neyðarköll annarra skipa sem eins er ástatt um. Baráttan er upp á líf og dauða.
Áhorfendur mega eiga von á óvenjulegri og áhrifamikilli kvöldstund, þar sem sagnaþulurinn Einar flytur magnaða sögu í návígi við áhorfendur.
Höfundur og flytjandi: Einar Kárason