Skipulagsbreytingar í Þjóðleikhúsinu

Nú í október ganga í gegn breytingar á skipulagi Þjóðleikhússins. Skipulagsbreytingarnar eru gerðar til að styrkja leikhúsið til enn frekari sóknar á næstu misserum og bregðast við breytingum í umhverfi leikhússins. Kynnt er flatara stjórnskipulag en áður sem á að skila aukinni skilvirkni og hagkvæmni. Nýtt óperusvið er búið til og aukin áhersla lögð á öfluga fjármálastjórn. Kynnt er flatara stjórnskipulag en áður sem á að skila aukinni skilvirkni og hagkvæmni.
Staða Þjóðleikhússins er sterk nú þegar leikhúsið fagnar 75 ára afmæli. Aðsókn er með mesta móti og listræn stefna er skýr. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á starfseminni á síðustu misserum, frumsköpun og höfundastarf er meiri en oftast áður, fræðslustarf hefur verið aukið, nýr leiklistarskóli hefur litið dagsins ljós og nýrri leikritahátíð var hleypt af stokkunum. Leikhúsið státar af afar sterkum starfsmannahópi og erlendir listamenn í fremstu röð starfa með leikhúsinu.
Nú í sumar bárust tvenn stórtíðindi sem hafa áhrif á umgjörð Þjóðleikhússins. Alþingi samþykkti breytingar á Sviðslistalögum með það að markmiði að setja á stofn Óperu innan Þjóðleikhússins og á afmælisfögnuði leikhússins tilkynnti Logi Einarsson menningarmálaráðherra að ríkisstjórn Íslands hefði samþykkt viljayfirlýsingu um nýbyggingu sem mun hýsa nýtt sviðsrými og æfingarými fyrir Þjóðleikhúsið. Hvort tveggja eru framfaraskref og munu skapa spennandi ný tækifæri til að sækja fram og skapa aukin verðmæti á næstu árum.
Til að bregðast við breyttum aðstæðum hefur nýtt skipulag fyrir Þjóðleikhúsið verið samþykkt og verður innleitt á næstu vikum. Sem fyrr er þjóðleikhússtjóri forstöðumaður stofnunarinnar í heild sinni og heyrir hann undir þjóðleikhúsráð og ráðherra.
Helstu breytingar í nýju skipulagi:
- Nýtt óperusvið hefur verið stofnað en því mun óperustjóri stýra. Ráðningarferli fyrir skipun óperustjóra stendur yfir. Hinar listrænu stoðir Þjóðleikhússins verða því tvær, Leiklistarsvið og Óperusvið. Engar breytingar eru gerðar á Leiklistarsviði en Óperusviðið verður formað nánar þegar óperustjóri tekur til starfa.
- Þrjú stoðsvið styðja við allar uppsetningar og starfsemi Þjóðleikhússins. Hverju þeirra stýrir framkvæmdastjóri hvers sviðs – en samhliða er stöðu eins miðlægs framkvæmdastjóra lagt niður. Þannig er stjórnskipulag orðið flatara en áður og stjórnunarlag sem miðlægur framkvæmdastjóri stýrði er tekið út. Þannig heyrir framkvæmdastjóri hvers sviðs nú beint undir Þjóðleikhússtjóra en ekki miðlægan framkvæmdastjóra eins og áður. Er þetta gert til að auka skilvirkni, hagkvæmni og valdefla stjórnendur. Stoðsviðin þrjú eru:
- Framleiðsla og skipulag. Undir þetta svið heyra allar tækni- og framleiðsludeildir leikhússins. Jafnframt framleiðslustýring og allt skipulag. Þetta svið byggir á undirsviði sem fyrir var – en ábyrgðarsvið eru skýrð og útvíkkuð.
- Samskipti og upplifun. Undir þetta svið heyra markaðsmál, miðlun, miðasala, þjónusta og upplifun. Sá hluti byggir á fyrra undirsviði með sama nafni en ábyrgðarsvið eru skýrð og útvíkkuð. Undir þetta svið mun nú einnig heyra húsnæðisþróun.
- Fjármál og rekstur. Hér er búið til nýtt svið sem fær aukið vægi. Lagt er upp með enn markvissari fjármálastjórn og uppbyggingu fjárhagskerfa sem styðja við flóknari starfsemi leikhússins á næstu árum með nýjum verkefnum.
- Mannauðsstjóri er ráðinn til starfa. Mannauðsstjóri mun fara með öll helstu málefni mannauðs og menningar. Fram undan eru margar ráðningar, ekki síst á óperusviði og mun mannauðsstjóri styðja vel við þá uppbyggingu.


Ný verkefni og tvær stöður auglýstar:
Þessar breytingar á skipulagi kalla á tilfærslu verkefna:
- Tinna Lind Gunnarsdóttir, tekur við starfi framkvæmdastjóra framleiðslu og skipulags. Samhliða lætur hún af starfi forstöðumanns.
- Jón Þorgeir Kristjánsson, Jorri, tekur við starfi framkvæmdastjóra samskipta og upplifunar. Samhliða lætur hann af starfi forstöðumanns.
- Steinunn Þórhallsdóttir lætur af störfum miðlægs framkvæmdastjóra og eru þökkuð góð störf
- Ný staða framkvæmdastjóra fjármála og rekstrar eru laus til umsóknar
- Ný staða mannauðsstjóra er laus til umsóknar