20. Mar. 2019

Shakespeare verður ástfanginn – í haust

Aron Már og Lára Jóhanna fara með aðalhlutverk í Shakespeare in Love á Stóra sviðinu

Þjóðleikhúsið frumsýnir í október hið geysivinsæla leikverk Shakespeare verður ástfanginn (Shakespeare in Love) eftir Lee Hall byggt á samnefndri kvikmynd. Selma Björnsdóttir leikstýrir, Aron Már Ólafsson (Aron Mola) fer með hlutverk hins unga leikskálds Williams Shakespeares og Lára Jóhanna Jónsdóttir leikur konuna sem hann elskar.

Shakespeare verður ástfanginn er rómantískur gamanleikur þar sem spunnið er frjálslega út frá ævi leikskáldsins Williams Shakespeares. Shakespeare er ungt skáld sem reynir að fóta sig í hinu róstusama leikhúslífi Lundúnaborgar á Elísabetartímanum. Hann glímir við að skrifa nýtt leikrit, sem síðar verður Rómeó og Júlía, en óttast að hann hafi glatað skáldgáfunni. Aðalsmeyna Víólu de Lesseps dreymir um að verða leikari, á tímum þar sem samfélagið leyfir einungis karlmönnum að stíga á svið. Shakespeare verður yfir sig ástfanginn af þessari skarpgreindu og listhneigðu ungu konu, og ástin fyllir hann andagift á ný. En elskendurnir lifa á viðsjálum tímum þar sem stéttaskipting er mikil, valdabaráttan harðvítug og stutt er í að sverðin fari á loft.

Leikritið Shakespeare verður ástfanginn var frumsýnt á West End árið 2014 og naut mikilla vinsælda. Verkið er byggt á kvikmyndahandriti eftir Marc Norman og Tom Stoppard en kvikmyndin Shakespeare in Love var frumsýnd árið 1998 og hlaut sjö Óskarsverðlaun, meðal annars sem besta kvikmynd ársins og fyrir besta handrit.

Selma Björnsdóttir leikstýrir sýningunni, en hún hefur leikstýrt fjölda vinsælla sýninga í Þjóðleikhúsinu og víðar, nú síðast Ronju ræningjadóttur. Kristján Þórður Hrafnsson þýðir verkið, en nýjasta þýðing hans er Ríkharður III eftir William Shakespeare. Finnur Arnar Arnarson hannar leikmynd og María Th. Ólafsdóttir búninga.

Með hlutverk Williams Shakespeares fer Aron Már Ólafsson, einnig þekktur sem snapparinn Aron Mola. Aron Már vakti meðal annars mikla athygli fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð 2 í vetur, en hann mun útskrifast úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands í vor. Aron Mola á marga fylgjendur á samfélagsmiðlum þar sem hann hefur fjallað um ýmis mikilvæg málefni, og hann stofnaði ásamt öðrum félagasamtökin Allir gráta, sem vinna að því markmiði að efla geðheilsu barna og ungmenna á Íslandi.

Lára Jóhanna Jónsdóttir leikur Víólu de Lesseps, en hún hefur farið með fjölda burðarhlutverka í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og kvikmyndum. Hún lék meðal annars aðalhlutverk í leikritunum Horft frá brúnni, Í hjarta Hróa hattar og Sporvagninum Girnd í Þjóðleikhúsinu og í kvikmyndinni Lof mér að falla.

Fjöldi annarra leikara og tónlistarmanna tekur þátt í sýningunni, en um er að ræða stórsýningu þar sem horfið er aftur til Elísabetartímans í umgjörð og búningum.

Shakespeare verður ástfanginn er nokkurs konar „ástarbréf til leikhússins“. Dregin er upp litrík mynd af leikhúslífinu í Lundúnaborg árið 1593, sem minnir óneitanlega um margt á skemmtanaiðnaðinn í stórborgum samtímans, lífsbaráttuna í listaheiminum, harðvítuga samkeppnina, stjörnudýrkunina og átökin á milli voldugra framleiðenda og skapandi listafólks um hið listræna frelsi.

Hinar litríku persónur í leikverkinu eiga sér margar hverjar fyrirmyndir í þekktum einstaklingum frá þessum tíma, eins og Elísabetu drottningu og leikskáldinu Christopher Marlowe sem var ráðinn af dögum við dularfullar kringumstæður. Í leikritinu er einnig vísað með beinum hætti í leikrit Shakespeares sjálfs, atriði úr þeim, persónur og ljóðlínur.

Shakespeare verður ástfanginn er ástríðuþrungin ástarsaga, bráðfyndið og fjörugt verk um eldheitar ástir, baráttuna fyrir því að fylgja köllun sinni í hörðum heimi listarinnar og snilligáfuna sjálfa.

Sjá einnig: Aron Mola til liðs við Þjóðleikhúsið.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími