18. Des. 2025

Óresteia, jólafrumsýning Þjóðleikhússins eftir margverðlaunaða leikstjórann Benedict Andrews


Á annan dag jóla, föstudaginn 26. desember, frumsýnir Þjóðleikhúsið Óresteiu eftir Benedict Andrews í Kassanum. Verkið er innblásið af Óresteiu Æskýlosar en Benedict leikstýrir einnig sýningunni. Leikarar eru Nína Dögg Filippusdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Ásthildur Úa, Ebba Katrín Finnsdóttir og Atli Rafn Sigurðsson.

Nánar /Kaupa miða

Benedict Andrews hefur leikstýrt margverðlaunuðum sýningum í mörgum af helstu leikhúsum heims. Sýningar hans í Þjóðleikhúsinu, Ex, Ellen B. Macbeth og Lér konungur, hafa sannarlega slegið í gegn hjá áhorfendum og hlotið fjölda Grímuverðlauna. Nú síðast hlaut sýningin Ellen B Grímuverðlaun sem sýning ársins og Benedict var valinn leikstjóri ársins. Benedict hefur leikstýrt mörgum eftirsóttustu leikurum heims, m.a. þeim Cate Blancett, Gillian Andersson, Siennu Miller, Ben Foster og Jock O´Connel. Meðal leikhúsa sem hann hefur leikstýrt fyrir eru Schaubuhne, Young Vic, Sidney Theatre Company og St. Anne´s Warehouse.

Í fyrstu sýningu hans í Kassanum birtast okkur vægðarlaus átök innan fjölskyldu og skelfilegar afleiðingar stríðs og blóðhefnda. Þjóðleikhúsið teflir fram hópi fimm framúrskarandi leikara sem ögra sjálfum sér á nýjan hátt í krefjandi sviðsetningu. Það eru þau Nína Dögg Filippusdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Ásthildur Úa, Ebba Katrín Finnsdóttir og Atli Rafn Sigurðsson. Líkamleg nánd leikaranna, hrá fegurð textans og áhrifamáttur myndmáls og tónlistar bjóða upp á einstaka listræna upplifun. 


Í hópi listrænna stjórnenda er valinn maður í hverju rúmi. 
Elín Hansdóttir er leikmyndahöfundur, Filippía I. Elísdóttir er búningahöfundur, lýsing er í höndum Björns Bergsteins, tónlist sýningarinnar semur Bára Gísladóttir og Aron Þór Arnarsson stýrir hljóðhönnun. 

Nú í fyrsta sinn verður jólafrumsýning Þjóðleikhússins ekki á Stóra sviðinu – heldur í umbreyttu rými í Kassanum.  Þar munu áhorfendur vera í miklu návígi við leikhópinn og fyrir vikið komast færri áhorfendur en ella í salinn.  Því verða fjórar frum- og hátíðarsýningar alla dagana milli jóla og nýárs, þ.e. 26., 27., 28. og 30. desember.  Uppsetningin er um margt óvenjuleg og því verður sýningartímabilið þétt og snarpt. Sýningum lýkur 10. (ath rétt??) mars.  Sýningin er um fjórar klukkustundir með tveimur hléum.

Umræður í kjölfar 6. sýningar 

Hefðinni samkvæmt verður boðið upp á umræður með listrænum stjórnendum og leikurum í kjölfar 6. sýningar en einungis örfá sæti eru laus það kvöld. 

 

Opnunartími miðasölu yfir hátíðarnar
23.des 12:00 – 21:00
24.des 10:00-14:00
25.des LOKAÐ
26.des 16:00 – 19:00
27.des 12:00 – 19:00
28.des 12:00 – 19:00
29.des 14:00 – 18:00
30.des 14:00 – 19:00
31.des LOKAÐ
1.jan LOKAÐ

Miðasala á vefnum, leikhusid.is er opin allan sólarhringinn.

Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið eins og miðasala.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími