Orð gegn orði kveður fyrir fullu húsi
Nú er rétt ár síðan sýningin Orð gegn orði var frumsýnd í Kassanum. Það var alveg sérstök eftirvænting í loftinu á frumsýningarkvöldi líkt og oft vill verða þegar nýtt verk er tekið til sýninga. Sumir höfðu haft spurnir af góðum viðtökum þess víða um heim, en voru ekki miklu nær. Vissu það eitt að verkið væri einleikur um unga konu; lögmann sem hefur varið kynferðisbrotamenn og forðað mörgum þeirra undan dómi. En þegar hún verður sjálf fyrir áfalli neyðist hún til að taka hugmyndir sínar og viðhorf til gagngerrar endurskoðunar.
Leikstjórinn, Þóra Karítas Árnadóttir og leikkonan Ebba Katrín Finnsdóttir höfðu á æfingatímanum verið í nánu samstarfi við ýmis félagasamtök sem sinna málefnum brotaþola í kynferðisafbrotamálum, heimsótt lögmenn og dómara og lagt sig fram um að rýna málefnið einstaklega vel, auk hinnar hefðbundnu vinnu við að vinna listaverkið sjálft sem leiksýning auðvitað er.
Ekkert hlé var á sýningunni sem var rétt um tveggja tíma löng. Áhorfendur urðu ekki sviknir. Leikritið er firna gott, leikur Ebbu var stórkostlegur og Þóra Karítas og listræna teymið sköpuðu umgjörð sem þjónaði sögunni og skildi áhorfendur eftir agndofa. Þegar ljósin dóu út og leikhúsgestir tóku andvörp var öllum ljóst að sýningin hafði hitti í mark. Leikhúsgestir risu allir úr sætum og það mátti merkja að þau hefðu upplifað eitthvað alveg einstakt.
Síðan hefur nánast ekkert lát verið á vinsældum einleiksins Orð gegn orði og sú ákvörðun var tekin að færa sýninguna á Stóra sviði og þar öðlaðist hún enn nýtt líf. Í kvöld er hins vegar komið að leiðarlokum. Alls hafa um tólf þúsund leikhúsgestir upplifað þessa mögnuðu sýningu og sýningarnar urðu alls 63. Það er ekki sjálfgefið að einleikur nái slíku flugi og að þess háttar verk tali jafn sterkt til áhorfenda og raun ber vitni.
Í Orð gegn orði segir frá Tessu, ungum og metnaðarfullum lögmanni, sem hefur tekist að klífa hratt upp metorðastigann. Hún vinnur hvert málið á fætur öðru, með framúrskarandi þekkingu sinni á lagabókstafnum, ver sakborninga af fimi og prófar vitni með úthugsuðum spurningum. Skyndilega verður ófyrirsjáanlegur atburður í einkalífi hennar til þess að allt sem virtist svo borðleggjandi sýnist ekki eins einfalt og skýrt og áður, og hún neyðist til að taka hugmyndir sínar og viðhorf til gagngerrar endurskoðunar.
Í verkinu er tekist á við ágengar spurningar um feðraveldið, réttarkerfið, kynferðisbrotamál, siðgæði, sekt og sönnunarbyrði. Hvaða vægi hafa tilfinningar og réttlætiskennd í flóknum málum, og hvenær er sekt nægilega sönnuð? Ebba Katrín Finnsdóttir leikur þennan magnaða verðlaunaeinleik.
Suzie Miller hlaut Olivier-verðlaunin fyrir leikritið árið 2023
Orð gegn orði (Prima Facie) er margverðlaunað, nýtt verk sem sló í gegn á West End og Broadway, eftir að hafa unnið til leikritunarverðlauna ástralska rithöfundasambandsins. Verkið hlaut Olivier-verðlaunin árið 2023, auk þess sem sýningin hlaut fjölda tilnefninga til Olivier-verðlaunanna og Tony-verðlaunanna.