09. Sep. 2025

Opnunarviðburður Brakkasamtakanna í Þjóðleikhúsinu

Brakkasamtökin, samtök fyrir fólk sem eru í mikilli erfðafræðilegri áhættu á að fá krabbamein, voru aufúsugestir í Þjóðleikhúsinu nú fyrir helgi. Þar opnuðu samtökin ráðstefnu sína Skref fyrir skref með leiksýningu og vel heppnuðum viðburði.

Byrjað var niðri í Þjóðleikhúskjallara þar sem danska leikkonan Christina Selden steig á svið, en hún hefur hlotið mikið lof fyrir sýninguna. Í verkinu túlkar hún sína eigin reynslu af krabbameinsmeðferð og fer í gegnum reynsluna frá því hún greinist. Þetta skapaði áhrifamikla og einlæga upplifun fyrir áhorfendur.

Í framhaldi var farið upp í Kristalsal leikhússins þar sem var boðið upp á sérstakan viðburð fyrir konur, „Show and tell“. Sjö konur sem gengið hafa í gegnum brjóstnám og mismunandi brjóstauppbyggingar deildu reynslu sinni og sýndu útkomuna. Auk þess fór fram lifandi sýning á þrívíddar geirvörtutattú sem Sandra Lárusdóttir frá Heilsu og útliti framkvæmdi, með Katrínu Júlíusdóttur sem módel.

Að sögn skipuleggjenda markaði viðburðurinn í Þjóðleikhúsinu áhrifaríkt upphaf ráðstefnunnar þar sem list, fræðsla og reynslusögur fléttuðust saman til að varpa ljósi á líf kvenna sem lifa með hááhættu á að fá krabbamein eða hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð.

Brakkasamtökin standa vörð um hagsmuni einstaklinga með háa erfðafræðilega áhættu á krabbameini, efla fræðslu og rannsóknir og veita arfberum og fjölskyldum þeirra stuðning. Þjóðleikhúsið vill þakka aðstandendum viðburðarins fyrir komuna og fyrir sitt góða starf. Verslunin Akkúrat Store fær einnig þakkir fyrir veittan stuðning.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum. Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið virka daga frá kl. 9 og frá kl. 12 um helgar og fram að sýningu.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími