Nýtt eldhús eftir máli frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í vetur

Nýtt eldhús eftir máli er heitið á glænýju íslensku leikriti eftir Friðgeir Einarsson en það verður frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu á leikárinu sem nú er að hefjast. Friðgeir skrifar verkið fyrir leikhóp Þjóðleikhússins en það var upphaflega flutt á leikritahátíð Þjóðleikhússins Gula dreglinum síðastliðið vor og í framhaldi af því var ákveðið að þróa verkið til sýninga á sviði . Björn Thors leikstýrði lestrinum og mun áfram fylgja verkinu sem leikstjóri.
Sýn Friðgeirs Einarssonar á hversdagsleikann er í senn næm, nöpur og fyndin. Hann hefur komið víða við í íslensku leikhúslífi síðustu ár, sem leikskáld, leikari og einn af meðlimum leikhópsins Kriðpleirs. Hann hefur sannað sig sem einn fremsti sviðslistamaður sinnar kynslóðar með sýningum á borð við Club Romantica.
Leikarar í sýningunni eru þau Ilmur Kristjánsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Salka Gústafsdóttir og Ingi Þór Þórhallsson sem jafnframt þreytir frumraun sína sem atvinnuleikari við Þjóðleikhúsið, en hann útskrifaðist af leikarabraut Listaháskólans síðastliðið vor. Björn Thors leikstjóri verksins mun vinna með teymi listrænna stjórnenda sem hafa áður skapað saman sýningarnar Vertu úlfur og Saknaðarilmur. Þetta eru þau Filippía I. Elísdóttir sem hannar búninga og sviðmynd, Björn Bergsteinn lýsingu og Margrét Bjarnadóttir sem stýrir sviðshreyfingum en fleiri munu bætast í hópinn.
Kaupa leikhúskort