Ljóð fyrir þjóð!
Listafólk Þjóðleikhússins leitar nú nýrra og fjölbreyttra leiða til að nýta hæfileika sína og gleðja landsmenn meðan á samkomubanni stendur. Nýir tímar kalla á nýtt form. Við verðum með fjölbreytta viðburði sem hleypt verður af stokkunum á næstu dögum. Allir viðburðir Þjóðleikhússins næstu vikurnar miða að því að fólk þurfi ekki að koma saman í hópum, hvorki listafólk né áhorfendur.
“Ljóð fyrir þjóð” í samstarfi við Rás 1
“Ljóð fyrir þjóð” fer þannig fram að almenningur getur sent inn ósk um eitt ljóð sem er í sérstöku uppáhaldi hjá viðkomandi. Daglega, frá mánudegi til föstudags, meðan samkomubannið er í gildi, fær einn Íslendingur boð um að koma í Þjóðleikhúsið og fá ljóðið sitt flutt af einum leikara hússins á Stóra sviði Þjóðleikhússins, fyrir sig einan.
Ljóðaflutningnum er streymt beint af Þjóðleikhúsinu og Rás 1.