Lína Langsokkur, skráning í leikprufur er hafin
Þjóðleikhúsið mun frumsýna stórsýningu um Línu Langsokk á Stóra sviðinu næsta haust. Lína Langsokkur er eitt ástsælasta leikverk allra tíma fyrir yngstu kynslóðina – og hver kynslóð þarf að kynnast sterkustu stelpu í heimi sem lætur sig ekki muna um að lyfta hestinum sínum á góðum degi eða hafa tvær löggur undir ef því er að skipta.
Við leitum að 10 – 15 ára krökkum! Skráning í leikprufur er hafin
Í tengslum við sýninguna verða haldnar prufur fyrir krakka á aldrinum 10-15 ára, (fædd 2010 til og með 2015) en alls er verið að leita að sextán krökkum til þess að deila átta hlutverkum.
Síðasti skiladagur umsókna er sunnudagurinn 9. mars!
Hver verður Lína?
Ætíð er mikill spenningur fyrir því hver leikur Línu og vini hennar Tomma og Önnu, auk allra hinna. Leikararnir sem fara með öll þessi hlutverk og önnur verða kynntir í mars en á sama tíma hefjast prufur fyrir börn sem hafa áhuga á að taka þátt í sýningunni við hlið atvinnuleikaranna.
Mikið sjónarspil framundan á Stóra sviðinu
Sýningin um Línu Langsokk verður heljarinnar sjónarspil sem mun henta breiðum aldurshópi. Agnes Wild er leikstjóri sýningarinnar en hún hefur vakið mikla athygli fyrir frábærar barnasýningar. Karl Olgeirsson verður tónlistarstjóri en skemmst er að minnast einstakra útsetninga hans á lögunum í Kardemommubænum fyrir skemmstu, reynsluboltinn Finnur Arnar hannar leikmynd og Eva Björg Harðardóttir er búningahöfundur. Þórarinn Eldjárn er þýðandi verksins.
Nú geta allir farið að hlakka til að kíkja inn á Sjónarhól í Þjóðleikhúsinu á næsta leikári.