31. Mar. 2022

Leiksýning í sýndarveruleika

Verkið Hliðstætt fólk eftir leikhópinn Huldufugl verður frumsýnt á Loftinu 7. apríl. Þetta er í fyrsta sinn sem að leiksýning innan sýndarveruleika fer fram í Þjóðleikhúsinu, en áhorfendur fá sýndarveruleikagleraugu og heyrnartól til að upplifa verkið í einrúmi.

Hliðstætt fólk tekst á við spurningar um traust og upplýsingaflæði, en sýningin sjálf breytist eftir því hverjir það eru sem upplifa hana hverju sinni. Þó rammi verksins sé ávallt hinn sami, þá getur sýningin endað á mismunandi vegu. Áhorfendur þurfa að taka ákvarðanir byggðar á þeim upplýsingum sem þeir fá í sýningunni, og þær ákvarðanir hafa áhrif á framvindu verksins. Því geta áhorfendur átt von á óvenjulegri og skemmtilegri upplifun. 

Sýningin er um 40 mínútur að lengd og geta áhorfendur valið hvort það fari fram á íslensku eða ensku.

Owen Hindley er listrænn stjórnandi og sér um hönnun og útlit sýndarheimsins. Hann tekur fram að verkið eigi margt sameiginlegt með hefðbundnara leikhúsi, um er að ræða lifandi flutning, sviðsmynd, lýsingu og hljóðhönnun sem áhorfendur skynja í rauntíma en með þessari tækni er leikhúsið víkkað í nýjar áttir. Kostir þess að vera með leiksýningu innan sýndarveruleika eru m.a. að hægt er að staðsetja áhorfandann í miðju atburðarásarinnar og leika sér með þyngdarafl, rými og mælikvarða.

Leikarar sýningarinnar eru tveir, Ástþór Ágústsson og Nanna Gunnars, en þau skipta með sér eina hlutverki verksins sem er ókynjað. Torfi Ásgeirsson og Steingerður Lóa Gunnarsdóttir hjálpa til við frásagnarhönnun verksins og Íris Thorarins er tónskáld verksins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem leikhópurinn Huldufugl tekst á við slíka nýjungagirni, en fyrri sýning þeirra Kassinn fór einnig fram í sýndarveruleika og þá eingöngu fyrir einn áhorfanda í einu. Sú sýning var sýnd 350 sinnum víða um heim og vann til fjölmargra verðlauna, þ.á.m. var hún tilnefnd til Grímunnar sem sproti ársins 2020.

Kaupa miða / Lesa nánar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími