Leikhússkóli Þjóðleikhússins kominn á fullt skrið
Leikhússkóli Þjóðleikhússins var settur þriðjudaginn 3. september. Alls munu 19 nemendur sækja skólann í vetur og læra vítt og breitt um starfsemi leikhússins. Leikhússkólinn býður upp á einstakt tækifæri fyrir ungt fólk á aldrinum 18-22 ára til að kynna sér leikhúsið frá ólíkum hliðum og efla færni sína. Leikhússkólinn býður upp á faglega eins árs leikhúsmenntun, þar sem nemendur kynna sér hin ólíku störf í leikhúsinu, meðal annars hönnun leikmynda, búninga, lýsingar og hljóðs, sýningarstjórn, leikritun og leiklist. Nemendur öðlast þannig víðtæka þekkingu á listforminu og fá tækifæri til að kynnast sjálfum sér sem listafólki og styrkja sýn sína, færni og áhuga.
Námið er einstaklingsmiðað og byggist á því að virkja sjálfstæða hugsun nemenda í skapandi samvinnu með leiðsögn frá kennara, í faglegu umhverfi. Í gegnum námið mynda nemendur leikhóp þar sem þau taka að sér ólík störf út frá áhugasviði sínu. Hópurinn vinnur að sýningu yfir veturinn, samhliða námskeiðum og fræðslu, sem í lok vetrar verður sýnd á fjölum Þjóðleikhússins. Auglýst er eftir umsóknum á vormisseri og hefur umsóknarferli vegna fyrsta skólaársins þegar farið fram. Á myndinni má sjá hluta af nemendahópnum.
Skólastjóri og aðalkennari er Vala Fannell. Auk Völu kemur listafólk úr Þjóðleikhúsinu að kennslunni, m.a. kennir Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahönnun, Filippía I. Elísdóttir búningahönnun, Björn Bergsteinn Guðmundsson ljósahönnun, Brett Smith hljóðhönnun, Elísa Sif Hermannsdóttir sýningarstjórnun og Matthías Tryggvi Haraldsson handritaskrif.