Leikhúsbörn 1 – Esther Talía Casey í viðtali við Steinunni Ólínu
Í hlaðvarpsþáttunum Leikhúsbörn ræðir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona við leikara og annað leikhúslistafólk sem hefur alist upp í leikhúsinu líkt og hún sjálf, en Steinunn er dóttir leikkonunnar og leikstjórans Bríetar Héðinsdóttur (1935-2006) og Þorsteins Þorsteinssonar þýðanda (f. 1938). Við fáum nýtt sjónarhorn á leikhúsheiminn í gegnum samtöl Steinunnar Ólínu við önnur leikhúsbörn og kynnumst því hvernig er að alast upp með annan fótinn í leikhúsi í návist íslenskra leikhúslistamanna. Leikhúsbörnin segja einnig frá fyrstu skrefum þeirra sjálfra innan leikhússins, og hvernig þau hafa nálgast leiklistina í sínum störfum. Svo, líkt og þegar leikhúsið er annars vegar, fer samtalið vítt og breitt um sviðið þar sem allt getur gerst.
Í fyrsta þætti Leikhúsbarna spjalla saman þær frænkurnar og leikkonurnar Esther Talía Casey og Steinunn Ólína. Esther Talía tengist leikhúslistafólki með ýmsu móti, en hún er systurdóttir Steinunnar Ólínu og barnabarn Bríetar Héðinsdóttur, eiginkona Ólafs Egils Egilssonar leikara, leikstjóra og höfundar og tengdadóttir þeirra Tinnu Gunnlaugsdóttur leikkonu og fyrrum þjóðleikhússtjóra og Egils Ólafssonar, söngvara og leikara.