Kristín Hauksdóttir sýningarstjóri jarðsungin
Útför Kristínar Hauksdóttur sýningarstjóra verður gerð frá Dómkirkjunni í dag kl. 13.
Kristín Hauksdóttir (1951-2025) starfaði sem sýningarstjóri við Þjóðleikhúsið allt frá útskrift úr námi í sýningarstjórn í Mountview Theatre School í Lundúnum árið 1981. Hún hafði með höndum sýningarstjórn fjölmargra verkefna leikhússins, leiksýninga, ballettsýninga, söngleikja og óperusýninga. Kristín var frumkvöðull í starfi sýningarstjóra, en hún var fyrsti sérmenntaði sýningarstjórinn á landinu, auk þess sem hún var fyrsta konan til að gegna því starfi í Þjóðleikhúsinu. Starfsfólk Þjóðleikhússins þakkar Kristínu frábær störf við Þjóðleikhúsið og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.
Minningarorð Magnúsar Geirs Þórðarsonar þjóðleikhússtjóra:
Fallin er frá kær vinkona okkar allra í Þjóðleikhúsinu, Kristín Hauksdóttir sýningastjóri.
Kristín hóf störf við leikhúsið strax að námi loknu árið 1981 og var hún einn af lykilstarfsmönnum Þjóðleikhússins allt til starfsloka fyrir rúmum tveimur árum. Sýningarstjóri heldur um alla þræði og tengir saman hið flókna samspil ólíkra listamanna og deilda í sköpunarferli leiksýningar. Frá og með frumsýningu tekur sýningarstjóri svo við sem eins konar skipstjóri hverrar sýningar, ber ábyrgð á tæknikeyrslu og tryggir að sýningin flæði sem best.
Hæfni Stínu og persónueinkenni féllu vel að hlutverki sýningarstjóra, því Stína var stór karakter, eins konar stórveldi. Hún bjó yfir ástríðu fyrir leikhúsinu og andaði með hverri leiksýningu sem hún tók þátt í. Stína var drífandi og dugleg, var skipulögð og nákvæm, hún hafði skoðanir og var óhrædd við að taka af skarið þegar á þurfti að halda, t.d. þegar upp komu óvæntar aðstæður.
Stína sýningarstýrði hundruðum sýninga en þar á meðal eru ótal leiksýningar, söngleikir, ballettsýningar og óperur. Meðal eftirminnilegra verka eru Sjálfstætt fólk, Draumur á Jónsmessunótt, Kirsuberjagarðurinn, Cyrano frá Bergerac, Hollendingurinn fljúgandi, Með fullri reisn, Ríkarður þriðji, Fjarskaland, Vesalingarnir, Óliver, Edith Piaf og Vertu úlfur.
Fyrir utan að starfa sem sýningarstjóri, þá var Stína leikhúsmanneskja af lífi og sál og þau Bjössi, Björn Bergsteinn Guðmundsson ljósahönnuður, deildu sannarlega ástinni á leikhúsinu. Stína tjáði sig óhrædd um kosti sýninganna og reyndar líka galla. Ekki var síðri ást Stínu og aðdáun á Bjössa sínum og hans vinnu í leikhúsinu. Alltaf var jafn fallegt að heyra hvernig hún hreifst af hinum listilegum töfrum sem Bjössi skapaði með lýsingu sinni og sjá hvað hún var uppnumin yfir því sem hún sá. Nú síðast, eftir frumsýningu á Vertu úlfur, þá klykkti Stína út með: “Svei mér þá, ég held að nú sé hann Bjössi minn að toppa sig.”
Stína hélt alltaf vel utan um hópinn sinn í leikhúsinu. Því kynntist ég sjálfur sem barn, þegar ég fékk að leika í Þjóðleikhúsinu og Stína leiddi mig inn í leikhúsið. Hún var eins og klettur, í senn hvetjandi, styðjandi, ákveðin og hlý. Það var sérstaklega ánægjulegt að taka þátt í að heiðra hana á Fullveldiskaffi Þjóðleikhússins árið 2022 þegar henni voru þökkuð framúrskarandi störf.
Fyrir utan að vera þakklátur fyrir samstarf á sviði leikhússins, er ég þakklátur Stínu fyrir vináttu í gegnum árin og góðar stundir innan leikhússins og utan. Í góðra vina hópi lék Stína á alls oddi, sagði sögur og hló dátt. Þannig var Stína – stuðmanneskja sem naut þess að vera innan um fólk og njóta lífsins.
Allt fram á síðasta dag var leikhúsið Stínu ofarlega í huga, hún var alltaf með það í huga og hjarta og fylgdist með því sem var að gerast í gegnum Bjössa sinn. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hún heldur áfram að gefa Q inn – “Ljós upp” á nýjum stað.
Megi minning Kristínar Hauksdóttur lifa. Ég votta sonum hennar og mínum kæra vini, Bjössa innilegustu samúð.
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri
Myndir eru frá æfingum á Chicago og My Fair Lady í Þjóðleikhúsinu.