Heim. Nýtt verk eftir Hrafnhildi Hagalín frumsýnt 7. febrúar í Þjóðleikhúsinu
Föstudaginn 7. febrúar frumsýnir Þjóðleikhúsið í Kassanum leikritið HEIM, sem er nýtt verk eftir Hrafnhildi Hagalín. Magnús Geir Þórðarson leikstýrir en leikarar eru Sigurður Sigurjónsson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Almar Blær Sigurjónsson og Selma Rán Lima.
Heim er spennuþrungið og launfyndið fjölskyldudrama, beint úr íslenskum samtíma, um það sem kraumar undir niðri, það sem ekki er sagt, en einnig það sem hefði betur verið látið ósagt. Hrafnhildur Hagalín er eitt okkar virtasta leikskáld, en meðal fyrri verka hennar eru Ég er meistarinn, Hægan Elektra og Sek.
Listrænir stjórnendur auk Magnúsar Geirs, eru Fillippía I. Elísdóttir, leikmynda- og búningahöfundur, Björn Bergsteinn Guðmundsson, ljósahönnuður, Gísli Galdur, höfundur tónlistar og Aron Þór Arnarsson, hljóðhönnuður.
Langri bið eftir nýju verkefni Hrafnhildar Hagalín loksins lokið
Hrafnhildur Hagalín er eitt okkar virtasta leikskáld, en meðal fyrri verka hennar eru Ég er meistarinn, Hægan Elektra og heimildaverkið Flóð. Hrafnhildur starfaði sem listrænn ráðunautur í Þjóðleikhúsinu til nokkurra ára en ákvað að snúa sér aftur að skriftum og nú er komið að fyrsta verkinu úr hennar smiðju um nokkurra ára skeið. Leikmynd og búningar eru í höndum Filippíu I. Elísdóttur, um lýsingu sér Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist verður samin af Gísli Galdri Þorgeirssyni og Aron Þór Arnarsson mun sjá um hljóðhönnun.
Fyrsta leikstjórnarverkefni Magnúsar í stól Þjóðleikhússtjóra
Magnús Geir Þórðarsson leikstýrir nú sínu fyrsta verki í stóli Þjóðleikhússtjóra en hann hefur leikstýrt fjölda verka, m.a. þegar hann var í stóli leikhússtjóra Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar. Meðal fyrri uppsetninga Magnúsar eru Gauragangur, Nei ráðherra, Svartur köttur, Sweeney Todd, Fullkomið brúðkaup, Óliver! og Stjörnur á morgunhimni.
Spennuþrungið fjölskyldudrama úr íslenskum samtíma
Móðirin hefur breyst. Hver var hún, hver er hún orðin? Hún er nýkomin heim eftir dvöl á heilsuhæli erlendis þar sem hún reyndi að jafna sig eftir alvarlegt áfall. Fjölskyldan tekur henni opnum örmum. En það er eitthvað undarlegt við hana, eins og hún sé ekki sú sem hún var. Faðirinn elskar konu sína meira en allt annað og er á þönum við að halda öllu góðu. Sonurinn og Dóttirin reyna að gera sitt besta í nýjum aðstæðum. En öll glíma þau við eitthvað sem þau tala ekki um og ástandið er eldfimt. Og ekkert má fréttast út fyrir veggi heimilisins. Hvaða áhrif hefur breyting Móðurinnar á hvert og eitt þeirra? Hvað hefur eiginlega gerst og hvað hafa þau að fela? Gætu nágrannarnir Ellert og Elsa varpað ljósi á eitthvað? Eða flækja þau bara málin?