22. Júl. 2021

Fyrsta lagið úr Rómeó og Júlíu

Frægasta ástarsaga allra tíma, Rómeó og Júlía verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í september og nú hefur fyrsta lagið úr sýningunni verið gefið út. Höfundar lagsins eru tónlistarstjóri sýningarinnar Salka Valsdóttir og leikkonan Ebba Katrín Finnsdóttir.

Lagið HEITI KING er bleikur svefnherbergis píkupopp slagari um innilokunarkennd, barnslega hrifingu og, kannski allra helst, Rómeó. Lagið lýsir innra lífi Júlíu og er lýsandi fyrir hennar ríkjandi rafmögnuðu orku, á blaði sem og á sviði.

Salka Valsdóttir, hefur skapað sér nafn sem framsækin tónlistarkona, meðal annars sem meðlimur Reykjavíkurdætra og CYBER og sem hljóðmyndahönnuður við Volksbuhne í Berlín, en hún er tónlistarstjóri sýningarinnar. Ásamt henni kom Ebba Katrín Finnsdóttir að skrifum og flutningi lagsins, en hún fer með hlutverk Júlíu í sýningunni.

Rómeó og Júlía er frægasta ástarsaga allra tíma í nýrri útfærslu framsækinna listamanna

Rómeó og Júlía er saga af sannri ást en um leið ástsýki og ungæðishætti. Í forgrunni verður mögnuð barátta ungrar konu gegn yfirþyrmandi feðraveldi. Fegurstu sögurnar geta sprottið upp úr hræðilegustu aðstæðunum. Leikritið Rómeó og Júlía er frægasta ástarsaga allra tíma, og birtist hér í nýrri þýðingu og útfærslu sem hrífur áhorfandann með inn í heillandi og hættulegan heim.

Þorleifur Örn leikstýrir stórum hópi leikara með Ebbu Katrínu og Sigurbjarti Sturlu í aðalhlutverkum

Þorleifur Örn Arnarsson er einn fremsti leikstjóri Evrópu og einn listrænna stjórnenda hins virta leikhúss Volksbühne. Hann á að baki geysivinsælar sýningar á Íslandi á borð við Engla alheimsins og Njálu. Nú hefur hann gengið til liðs við nýtt listrænt teymi Þjóðleikhússins þar sem hann mun starfa á næstu árum. Þorleifur hefur leikinn með sýningu sem hvetur fólk til að skoða sjálft sig og aðstæður sínar í nýju samhengi.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími