12. Des. 2025

Fyrrum starfsfólki boðið í heimsókn á aðventunni


Árlega býður Þjóðleikhúsið fyrrum starfsmönnum í heimsókn á aðventunni til að rifja upp góðar stundir

Á síðustu árum höfum við boðið fyrrum starfsfólki Þjóðleikhússins í aðventukaffi. Þessar samverustundir hafa verið einstaklega gefandi og skemmtilegar líkt og í dag þegar fyrrum starfsfólk fjölmennti í Kjallarann, ásamt núverandi starfsfólki.

Sjálfstætt fólk 1999

Sú skemmtilega hefð hefur skapast að rifja upp góðar minningar tengdar ákveðinni sýningu Þjóðleikhússins og að þessu sinni var það uppsetning Kjartans Ragnarssonar á Sjálfstæðu fólki – Bjarti og Ástu Sóllilju frá árinu 1999. Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur hússins, stýrði umræðum með þátttöku Kjartans Ragnarssonar leikstjóra, Sigríðar Margrétar Guðmundsdóttur sem samdi leikgerðina ásamt Kjartani, Axel Hallkel Jóhannessyni leikmyndarhöfundi, Þórunni Elísabetu Sveinsdóttur búningahöfundi, Páli Ragnarssyni höfundi lýsingar, Kristbjörgu Kjeld leikkonu og Arnari Jónssyni sem fór með hlutverk Bjarts í Sumarhúsum í síðari hlutanum, Ástu Sóllilju – Lífsblóminu, en lék Þórð í Niðurkotinu í fyrri sýningunni Bjarti – Landnámsmanni Íslands. Einnig tóku gestir í salnum þátt í líflegum og skemmtilegum umræðum og rifjuðu upp hlýjar og bráðfyndnar minningar tengdar sýningunni. Með gesta sem tóku til máls voru þau Sveinn Einarsson fv. þjóðleikhússtjóri, Stefán Baldursson fv. þjóðleikhússtjóri, Tinna Gunnlaugsdóttir leikkona og fv. þjóðleikhússtjóri og Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona.

Sigurður og Michael heiðraðir

Við þetta tækifæri voru þeir Sigurður Sigurjónsson leikari og Michael John Bown smiður, sem létu af störfum á árinu, kvaddir sérstaklega og þeim þökkuð góð störf. Þótt Sigurður sé ekki lengur á föstum samningi er hann síður en svo búinn að kveðja leiksviðið og undirbýr nú sýninguna Harrý og Heimir – morð skulu standa, með félögum sínum. Sigurður og Mick fengu að gjöf púða með sama áklæði og prýðir sætin í stóra sal Þjóðleikhússins.

     

Opnunartími miðasölu yfir hátíðarnar
23.des 12:00 – 21:00
24.des 10:00-14:00
25.des LOKAÐ
26.des 16:00 – 19:00
27.des 12:00 – 19:00
28.des 12:00 – 19:00
29.des 14:00 – 18:00
30.des 14:00 – 19:00
31.des LOKAÐ
1.jan LOKAÐ

Miðasala á vefnum, leikhusid.is er opin allan sólarhringinn.

Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið eins og miðasala.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími