24. Jan. 2025

Forsala á Storm hefst þriðjudaginn 28. jan.

Þriðjudaginn 28. janúar hefst miðasala á glænýjan íslenskan söngleik en hann hefur fengið nafnið Stormur. Þær Unnur Ösp Stefánsdóttir og Una Torfadóttir hafa skrifað söngleikinn saman og öll tónlist verksins er eftir Unu. Söngleikurinn talar til ólíkra kynslóða um fyrstu stóru tímamót lífsins. Vinahópur sem er að útskrifast úr menntaskóla stendur á tímamótum sem eru í senn spennandi og ógnvænleg. Hver er ég og hver vil ég vera? Get ég sagt skilið við fortíðina og byrjað lífið upp á nýtt? Þori ég að taka stökkið og fylgja hjartanu, alla leið?

Málum miðbæinn rauðan – nýtt lag

Una Torfadóttir kom eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir tveimur árum. Hver smellurinn á fætur öðrum hefur náð miklum vinsældum og hrifið fólk á öllum aldri. Nýjasta plata hennar, Sundurlaus samtöl, hefur fengið frábærar viðtökur. Í sönleiknum verður mikið um þekkta tónlist Unu en einnig ný lög. Nú fær fyrsta nýja lagið úr verkinu að hljóma og það er sannkallaður stuðslagari Málum miðbæinn rauðan.

Hlusta á lag

 

Unnur Ösp skrifar verkið með Unu og leikstýrir

Fyrri leikverk Unnar Aspar í Þjóðleikhúsinu, verðlaunaverkin Vertu úlfur og Saknaðarilmur, hafa hreyft rækilega við leikhúsgestum og heillað þá, en í þeim hefur hún beint sjónum að mikilvægum málefnum í samtíma okkar. Nú vinnur hún með einni fremstu tónlistarkonu landsins af ungu kynslóðinni, Unu Torfadóttur og þær semja í sameiningu nýjan söngleik sem fjallar á beinskeyttan hátt um ungt fólk á Íslandi í dag. Stórvinsæl lög Unu Torfa hljóma í bland við ný og grípandi lög.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími