20. Des. 2018

Einræðisherrann – jólafrumsýning

Meistaraverk Charlies Chaplins er jólafrumsýning Þjóðleikhússins

Á annan dag jóla frumsýnir Þjóðleikhúsið Einræðisherrann , meistaraverk Charlies Chaplins í nýrri leikgerð eftir Nikolaj Cederholm sem er einnig leikstjóri verksins.

Sigurður Sigurjónsson spreytir sig á hlutverki flækingsins og einræðisherrans en þess má geta að Sigurður hefur verið einlægur aðdáandi Chaplins frá unga aldri og á stórt safn af munum sem tengjast Chaplin. Það má með sanni segja að hlutverk flækingsins, sem verður einræðisherra fyrir röð mistaka, sé draumahlutverk Sigurðar. Sjá má viðtöl við Sigurð Sigurjónsson og fleiri um sýninguna hér .

Aðrir leikarar í sýningunni eru Ilmur Kristjánsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson.

Tónlist er mikilvægur þáttur í sýningunni, og tónlistarstjórinn Karl Olgeirsson leikur á píanó af fingrum fram og sér um leikhljóð.

Listrænir stjórnendur sýningarinnar eru að mestu danskir en verkið var upphaflegt sett upp á síðasta ári hjá Nørrebro-leikhúsinu í Kaupmannahöfn, þar sem það sló rækilega í gegn. Gagnrýnendur hlóðu lofi á sýninguna og naut hún mikilla vinsælda.

Einræðisherrann er heillandi, bráðskemmtileg og frumleg leiksýning um valdasýki, möguleika mennskunnar í trylltri veröld og baráttuna fyrir friði í heiminum.

Að venju er boðið upp á umræður eftir 6. sýningu, laugardagskvöldið 12. janúar.

Sjá leikskrá sýningarinnar hér .

Sem fyrr segir er Nikolaj Cederholm leikstjóri sýningar og höfundur leikgerðar, en meðleikstjóri hans er Malene Begtrup. Leikmynd gerir Kim Witzel, búningar eru eftir Line Bech, höfundur sviðshreyfinga er Anja Gaardbo og Kasper Ravnhøj sér um slapstick. Lýsing er í höndum Ólafs Ágústs Stefánssonar, Karl Olgeirsson er tónlistarstjóri og sér um píanóleik og leikhljóð, en Aron Þór Arnarsson sér um hljóðmynd. Magnea J. Matthíasdóttir þýddi leikgerðina.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími