„Draumur í lífi þjóðar“ eftir Halldór Guðmundsson, formann þjóðleikhúsráðs
Fyrir fimm árum skrifaði ég grein í Morgunblaðið sem hét „Eflum menningu á krepputíma – ljúkum við byggingu Þjóðleikhússins.“ Þetta var í flensufárinu mikla og kannski gerði ég mér ekki miklar vonir um að ráðist yrði í löngu tímabæra byggingu viðbótarsviðs fyrir húsið þá, þótt ég væri í raun bara að taka upp þráðinn frá fyrri forsvarsmönnum hússins.
Í greininni mátti lesa þetta: „Minna svið hússins hefur lengi verið í hinu gamla leikfimishúsi Jóns Þorsteinssonar sem er einmitt það, gamalt leikfimishús. Það uppfyllir ekki kröfur sem eðlilegt er að gera til aðstöðu helstu sviðslistastofnunar þjóðarinnar. Svartur kassi sem er sambyggður leikhúsinu er næsta stóra skrefið í þróun Þjóðleikhússins sem leikhúss og samverustaðar, rétt eins og bygging nýja sviðsins varð Borgarleikhúsinu mikill vegsauki.“ Síðan hefur hugmyndin þróast á þann veg að byggt verði milli gamla leikfimishússins og dómhússins sem svo hét, þar sem nú eru tröppur og bílastæði og verður ekki betur séð en að það sé frábær kostur.
Sem formaður þjóðleikhúsráðs fagna ég því viljayfirlýsingu stjórnvalda um að ljúka þessari viðbyggingu fyrir áttræðisafmælið 2030. Hún á vera einföld og hagkvæm en leysa margan vanda, líka þann sem snýr að æfingasviði, búningageymslu og bættri þjónustu við leikhúsgesti. Nýtt svið fyrir 300 manns gerir Þjóðleikhúsinu kleift að ná til enn fleiri gesta. Auk þess hefur leikhúsinu nú bæst mikilvægt verkefni þar sem óperan nýja er.
Við opnun Þjóðleikhússins árið 1950 sagði Guðlaugur Rósinkranz, fyrsti leikhússtjóri þess: „Reykjavík hefur stækkað stórlega við tilkomu leikhússins, hún hefur fengið við það nýjan menningarsvip og heimsborgarblæ.“ Síðan hefur íbúafjöldi Íslands nær þrefaldast. Það er því löngu tímabært að Þjóðleikhúsið sé eflt svo það geti verið það sem það heitir, leikhús allrar þjóðarinnar.
En aðbúnaður lista getur aldrei snúist bara um hagkvæmnissjónarmið. Strangt til tekið man ég varla eftir því tímaskeiði þar sem það hefur verið talið hagkvæmt eða hentugt að styrkja listafólk eða byggja hús yfir list.
Glæsilegustu listhús okkar hafa einmitt verið byggð á óhentugum tíma: Þjóðleikhúsið í harðri efnahagskreppu fjórða áratugarins, Harpa í hruninu miðju. Sumir ætluðu aldrei að stíga fæti inn í Hörpu. Þó held að þeir munu fáir Íslendingar nú sem geta hugsað sér höfuðstaðinn án hennar og án þess lífs sem hún geymir – og hafa í staðinn djúpa holu í miðjum bænum, þótt einhverjum kunni að hafa virst það hagkvæmt þá.
Það hefur verið sagt að listin sé samfélaginu það sem draumar eru einstaklingnum. Sá sem eingöngu sefur draumlausum svefni fær að lokum martraðir í vöku. Listin hefur fylgt manninum frá öndverðu, eins og draumarnir. Og hvað er samfélag án drauma, hvað eru stjórnmál án hugsjóna?
Halldór Guðmundsson
Höfundur er rithöfundur og formaður þjóðleikhúsráðs.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. ágúst 2025.
