25. Ágú. 2025

Ávarp þjóðleikhússtjóra á afmæli Þjóðleikhússins

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri, Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, Björn Skúlason og Logi Einarsson, menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðherra

Ávarp þjóðleikhússtjóra á afmæli Þjóðleikhússins í kjölfar tilkynningar menningarmálaráðherra um byggingu nýs sviðs- og æfingarýmis fyrir Þjóðleikhúsið.

23.ágúst 2025

Forseti, menningarmálaráðherra, borgarstjóri – og góðir gestir.

Fyrir 75 árum rættist langþráður draumur stórhuga þjóðar þegar Þjóðleikhúsið var loks opnað vorið 1950.  Hverfisgatan var troðfull af fólki sem fagnaði og fylgdist með gestum streyma inn í þessa Álfahöll, eins og leikhúsinu var lýst á þeim tíma.

Nú í dag, 75 árum síðar fögnum við á ný. Við fögnum ekki bara stórbrotinni sögu þessa merka leikhúss og sívakandi áhuga og væntumþykju þjóðarinnar gagnvart því – heldur fögnum við því að annar langþráður draumur verði að veruleika.

Með tilkynningu menningarmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar hér áðan er stigið nýtt risavaxið framfaraskref í sögu Þjóðleikhússins og leikhúslífs í landinu  – það stærsta frá því að þetta leikhús þjóðarinnar var opnað árið 1950.  Loksins, loksins er tekin ákvörðun um að byggja nýtt svið sem er sérstaklega hannað frá grunni til að vera leiksvið.

Þetta nýja svið býður upp á spennandi ný og fjölbreytt tækifæri til að skapa nútímalegar og heillandi sýningar. Byggingin mun gera okkur enn betur kleift að sinna okkar hlutverki og skapa ríkuleg verðmæti fyrir landsmenn alla.  Þessi bygging mætir brýnni þörf en rétt er að benda á að á þessum 75 árum hefur íbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins stóraukist.  Þetta eru stór og merkileg tímamót!   Við í Þjóðleikhúsinu þökkum ráðherra og ríkisstjórninni innilega fyrir stuðninginn við Þjóðleikhúsið og leikhúslífið í landinu.

Á þeim 75 árum sem eru liðin frá opnun Þjóðleikhússins hafa Íslendingar streymt í leikhúsið og upplifað stórkostlega töfra. Hlegið, grátið og séð nýjar hliðar á tilverunni og lífi sínu.  Þjóðinni hefur þótt vænt um leikhúsið sitt enda eru fá ef nokkur dæmi um Þjóðleikhús sem státar af því að jafn stór hluti þjóðarinnar sæki þjóðar-leikhúsið.  Þjóðleikhúsið er nefnilega leikhús okkar allra. Við  erum þjóðinni þakklát fyrir ástríðuna sem landsmenn hafa sýnt leikhúsinu sínu öll þessi ár.

Á undanförnum árum hafa sýningar hrifið gesti, hlotið verðlaun – og síðasta leikár er eitt fjölsóttasta leikár í sögu Þjóðleikhússins.

Afmælinu fögnuðum við fyrr á árinu með því að hlúa að framtíðinni og hleyptum af stokkunum nýjum leikhússkóla og leikritunarhátíð. Í dag fögnum við með því að halda mikla veislu.  Hér inni í leikhúsinu býðst ykkur að sjá, fyrst allra, brot úr sýningunni Lína Langsokkur sem frumsýnd verður í september. Hér á sviðinu og um allt hús munu ástsælar persónur skemmta og auk Línu og Bastíans bæjarfógeta munum við hitta Lilla Klifurmús, Elsu og Ólaf úr Frosti, Láru og Ljónsa, Gunnþóru úr Blómunum á þakinu, Soffíu frænku,  ræningjana úr Kardemommubænum og Mikka Ref.

Gleðilega hátíð og góða skemmtun á þessum góða degi!

Opnunartími miðasölu yfir hátíðarnar
23.des 12:00 – 21:00
24.des 10:00-14:00
25.des LOKAÐ
26.des 16:00 – 19:00
27.des 12:00 – 19:00
28.des 12:00 – 19:00
29.des 14:00 – 18:00
30.des 14:00 – 19:00
31.des LOKAÐ
1.jan LOKAÐ

Miðasala á vefnum, leikhusid.is er opin allan sólarhringinn.

Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið eins og miðasala.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími