Allar leikskrár Þjóðleikhússins verða aðgengilegar á timarit.is
Í tilefni 75 ára afmæli Þjóðleikhússins verða allar leikskrár frá upphafi gerðar aðgengilegar á timarit.is og vef Þjóðleikhússins. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Þjóðleikhúsið skrifuðu undir samstarfsamning um verkefnið á dögunum. Leikskrárnar verða skráðar, skannaðar og gerðar aðgengilegar á vefnum timarit.is. Þetta er stór áfangi í miðlun leiklistarsögunnar enda eru leikskrárnar fullar af fróðleik og fallegum ljósmyndum.
Nú eru leikskrár fyrstu sex ára orðnar aðgengilegar en þær eru einstök heimild um starfsemi Þjóðleikhússins. Í þeirri fyrstu, sem gefin var út í tilefni af opnunarsýningu Þjóðleikhússins, Nýársnóttinni eftir Indriða Einarsson, árið 1950, er meðal annars að finna ávörp Guðlaugs Rósenkranz, fyrsta þjóðleikhússtjóra Íslendinga og Sveins Björnssonar, fyrsta forseta Íslands, sem skrifar:
„Ég er í hópi þeirra, sem fagna því af heilum hug, að þessi nýja menningarstofnun, Þjóðleikhúsið tekur nú til starfa í svo góðum og virðulegum húsakynnum. Um leið og ég minnist með þakklæti allra þeirra, lífs og liðinna, sem að þessu mála hafa unnið, árna ég Þjóðleikhúsinu og öllum þeim, sem starfa eiga við það, allra heilla.“
Á næstu vikum verður vinnu lokið við að skrá og skanna inn leikskrár frá fyrsta áratugnum í starfsemi Þjóðleikhússins, leikskár fyrstu sex leikára eru nú þegar aðgengilegar, og stefnt er að því að leikskrár fyrstu fimmtíu starfsára leikhússins verði birtar á þessu ári. Það er Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Leikminjsasafni, sem hefur leitt þessa vinnu.

Örn Hrafnkelsson, landsbókavörður, og Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri