14. Jan. 2026

Aldarafmæli Rúriks Haraldssonar

Einn af máttarstólpunum í leikarahópi Þjóðleikhússins á fyrstu áratugunum í starfsemi leikhússins, Rúrik Haraldsson, hefði orðið 100 ára í dag. Rúrik lauk leiklistarnámi frá The Central School of Speech and Drama í London árið 1950. Rúrik byrjaði að leika í Þjóðleikhúsinu árið 1951 og var ráðinn hér á fastan samning árið 1956, en hann  lék í Þjóðleikhúsinu í nær hálfa öld og urðu hlutverk hans hér hátt á annað hundrað talsins. Meðal þeirra helstu má nefna Jón Proctor í Í deiglunni, Knock í Doctor Knock, Henry Higgins í My Fair Lady og Billy Jack í Táningaást. Önnur eftirminnileg hlutverk eru t.d. Jón í Gullna hliðinu, Arnas Arneus í Íslandsklukkunni, Sólnes í Sólnes byggingameistara, Lér konungur í samnefndu verki, Þórður í Stalín er ekki hér og James Tyrone í Dagleiðinni löngu. Síðasta hlutverk Rúriks í Þjóðleikhúsinu var í Sönnum karlmanni árið 1995. 

Lér konungur:

Morgunblaðið minnist Rúriks með minningargrein í blaði dagsins, en þar segir:

100 ár eru í dag liðin frá fæðingu Rúriks Haraldssonar leikara. Hann fæddist í Vestmannaeyjum 14. janúar 1926, sonur hjónanna Guðnýjar Kristjönu Einarsdóttur og Haralds Sigurðssonar.

Rúrik lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja árið 1943.

Hann byrjaði ungur að læra á hljóðfæri og lék á trompet, fiðlu og banjó. Jónas Dagbjartsson fiðluleikari kenndi honum þegar hann byrjaði í lúðrasveit Vestmannaeyja. Rúrik lék síðar á trompet í hljómsveit Bjarna Böðvarssonar á árunum 1945 og 1946.

Samhliða því stundaði Rúrik nám við leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og voru samnemendur hans þar hluti af öflugri, ungri kynslóð leikara sem komu fram á Íslandi í stríðslok og hann átti eftir að starfa með mörgum þeirra síðar bæði hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Þjóðleikhúsinu.

Árið 1947 hélt hann til náms við The Central School of Dramatic Art and Speech Training í Royal Albert Hall í Lundúnum árin 1947 til 1950. Námið sóttist vel og hlaut hann skólastyrk fyrir afburða námsárangur. Mun hann hafa verið fyrsti erlendi námsmaðurinn, sem hlotnaðist sá heiður við skólann.

Að námi loknu fékk hann nokkur atvinnutilboð, meðal annars hjá breska kvikmyndaverinu í London, Rank Film Laboratories, sem var mikil viðurkenning, en hann ákvað hins vegar að hafna þeim og halda heim til Íslands.

Rúrik var máttarstólpi í íslensku leiklistarlífi frá 1950 og allt fram á síðustu ár ævi sinnar. Hann var leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1946 til 1947 og 1950 til 1951. Hjá Þjóðleikhúsinu starfaði hann sem leikari frá árinu 1951 til 1995. Lék hann þar í tæplega 150 hlutverkum, síðast í leikritinu Sönnum karlmanni.

Uppfærsla Þjóðleikhússins á My Fair Lady árið 1962 sló í gegn. Þar var Rúrik í hlutverki prófessors Henrys Higgins. Sigurður Grímsson skrifaði í umsögn í Morgunblaðinu að aldrei hefði hann á íslensku leiksviði séð jafn glæsilega og skemmtilega sýningu. Hrósar hann sérstaklega Rúrik og segir hann ekkert hafa gefið eftir Alec Clunes í sama hlutverki í uppfærslu í London – og þá sé mikið sagt.

Björn son Rúriks rekur minni til að hingað hafi komið breskir blaðamenn, sem höfðu séð fjölmargar uppfærslur á söngleiknum í Evrópu og víðar um heim. Besta uppfærslan hefði verið á Broadway, uppfærslan í Þjóðleikhúsinu sú næstbesta.

Síðasta leikritið sem hann lék í á sviði var leikritið Fjögur hjörtu sem sýnt var í Loftkastalanum árið 1999 til 2000.

Hlutverk Rúriks í útvarpi og sjónvarpi skiptu hundruðum. Auk þess lék Rúrik í fjölmörgum kvikmyndum, bæði innlendum og erlendum, seinast í kvikmyndinni Stellu í framboði, sem gerð var 2002, árið fyrir andlát hans.

Rúrik hlaut ýmsar viðurkenningar á ferli sínum. Hann hlaut m.a. menningarverðlaun Þjóðleikhússins árin 1960 og 1968, og listamannalaun Menningarsjóðs 1960. Þá hlaut hann Silfurlampann, verðlaun Félags íslenskra leikdómara, árið 1970, fyrir túlkun sína á aðalhlutverkinu í leikritinu Gjaldinu eftir Arthur Miller. Þau verðlaun voru við lýði á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og var Rúrik þar í hópi með Brynjólfi Jóhannessyni, Vali Gíslasyni, Þorsteini Ö. Stephensen, Róberti Arnfinnssyni, Helgu Bachmann, Sigríði Hagalín, Helga Skúlasyni og Steinþóri Sigurðssyni leikmyndateiknara.

Hann fékk heiðurslaun listamanna, skv. ákvörðun Alþingis, frá árinu 2001.

Sveinn Einarsson leikhúsmaður féllst á að minnast Rúriks með nokkrum orðum í tilefni af afmælinu. Sveinn var leikhússtjóri bæði Iðnó og Þjóðleikhússins, vann mikið með Rúrik og hafði tækifæri til að fylgjast með nánast öllum ferli hans, allt frá fyrstu skrefunum í Iðnó á fimmta áratugnum.

„Ég fylgdist náið með honum, fyrst sem áhorfandi og síðan leikstjóri og leikhússtjóri, og þegar horft er til baka voru það mikil forréttindi. Og það voru ekki síður forréttindi að kynnast þeirri hlýju manneskju, sem að baki bjó.

Fyrstu hlutverkin voru sem sagt í Iðnó meðan hann var að þjálfa tjáningartækin, verkfæri leikarans ef svo má að orði komast, en síðan biðu hans áratugir í forystusveit Þjóðleikhússins.

Fjölbreytnin var ótrúleg, allt frá rómantískum elskhugum eins og Orlando hjá Shakespeare í Sem yður þóknast – hann hafði lært að fara vel með bundið mál – yfir í unga klækjalögfræðinga í nútímastofudrömum, þar sem talað var öðrum tungum. En svo gat hann með sinn bakgrunn í tónlist borið uppi helstu söngleiki eins og My Fair Lady og Táningaást. Grunnt var einnig í hreina gamansemi og skipti engu hvort Rúrik var í stóru hlutverki eða litlu og má minnast hans í skopleiknum Ítalska stráhattinum eftir Labiche, þar sem Rúrik sletti ærlega úr klaufunum og var bókstaflega ómótstæðilegur.

Hér er ekki ástæða til að rekja öll hans spor á sviðinu enda þyrfti þá að gefa út aukablað af Mogganum. En á síðari hluta ferils síns átti hann meðal annars tvo hátinda: Lé konung hjá Shakespeare og föðurinn í Dagleiðinni löngu inn í nótt eftir O’Neill.

Gamalt og heimskulegt máltæki segir að enginn sé eins dauður og látinn leikari. En það væri eins og að sneiða líkamsparta af menningarsögunni að hamra á slíku og hver sviðslistamaður er fulltrúi sinnar kynslóðar og um leið boðberi hinnar næstu. Leikarar eins og Rúrik Haraldsson eru því fyrirmynd þeirra sem eftir komu.

Leikhúslandslagið á dögum Rúriks var talsvert annað en í dag, ekki síst þökk sé Útvarpsleikhúsinu sem flutti mönnum vandað og fjölbreytt efni í viku hverri. Mátti því segja að Rúrik, ásamt öðrum sem báru uppi þá starfsemi, hafi verið húsvinur margra um árabil.

Til gamans má nefna, á þessum hátíðisdegi Rúriks, að mér bárust mér ýmsar góðar óskir þegar vitnaðist að ég myndi taka við embætti þjóðleikhússtjóra fyrir margt löngu. Skeytið frá Rúrik var stutt og laggott: Velkominn. Sjálfur var hann hvarvetna velkominn, jafnt meðal áhorfenda sem samverkamanna.“

Rúrik giftist Önnu Sæbjörnsdóttur hönnuði árið 1951 og eignuðust þau sex börn. Þrjú létust skömmu eftir fæðingu. Eftirlifandi eru Björn, Haraldur Steinn og Ragnhildur. Rúrik lést 23. janúar 2003.

Táningaást:

Stalín er ekki hér:

Íslandsklukkan:

Lér konungur:

Lér konungur:

Dagleiðin langa inn í nótt:

Dagleiðin langa inn í nótt:

Dagleiðin langa inn í nótt:

My Fair Lady:

Í deiglunni:

My Fair Lady:

 

 

 

Opnunartími miðasölu
Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum. Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið virka daga frá kl. 9 og frá kl. 12 um helgar og fram að sýningu.

Miðasala á vefnum, leikhusid.is er opin allan sólarhringinn.

Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið eins og miðasala.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími