Leikskáld og tónskáld
Norski listamaðurinn Thorbjörn Egner fæddist í Osló 12. desember árið 1912 og lést á aðfangadag árið 1990. Hann var afar fjölhæfur listamaður, fékkst við myndlist og samdi ljóð, sögur, leikrit og tónlist. Hann er einna þekktastur fyrir leikrit sín Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn og Karíus og Baktus, en hann sendi einnig frá sér fjölda bóka, myndskreytti bækur og vann margskonar barnaefni fyrir útvarp. Hann lét til sín taka á ýmsum sviðum barnamenningar, og sá meðal annars um útgáfu lestrarbóka fyrir börn.
Leikrit Thorbjörns Egners hafa notið mikilla vinsælda á Íslandi í sex áratugi, eða allt frá því að Kardemommubærinn var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu árið 1960. Egner þótti afar vænt um þær góðu viðtökur sem verk hans hlutu hér á landi, og hann tengdist Þjóðleikhúsinu og starfsfólki þess nánum böndum. Kardemommubærinn er nú settur upp í Þjóðleikhúsinu í sjötta sinn, en sýningin er jafnframt 70 ára afmælissýning Þjóðleikhússins.
Myndlist, leikrit, sögur, ljóð og lög
Allt frá barnæsku lifði Egner í heimi sagna, myndlistar, tónlistar og leiklistar, eða eins og hann sagði sjálfur: „Að yrkja ljóð og vísur og leika tónlist og teikna og mála og setja upp leikrit er það sem ég hef haft mest gaman af allt frá því að ég man eftir mér, ég hef kannski alltaf verið nokkurs konar „klifurmús“.“
Egner ólst upp í Osló, en foreldrar hans ráku litla nýlenduvöruverslun á fyrstu hæð í húsinu þar sem fjölskyldan bjó. Í bakgarðinum var hesthús, heyloft og vagnskýli og þar gátu börnin sýnt leiksýningar og spilað í hljómsveit. Á sumrin dvaldi Egner á bóndabæ hjá skyldfólki sínu og í mörgum verkum sínum styðst hann við minningar frá æskuárunum í Osló og í sveitinni.
Egner lærði teiknun og hönnun og vann fyrst í stað við að teikna og mála. Hann myndskreytti bækur fyrir börn og fullorðna, og þótti góður grafíklistamaður. Hann vakti þó fyrst verulega athygli með þátttöku sinni í barnatímum í útvarpi á fimmta og sjötta áratugnum. Hann samdi sögur, vísur, tónlist og leikrit fyrir útvarp, og söng sjálfur lög og las sögur. Hann eignaðist brátt stóran hóp aðdáenda, og mikið af því efni sem hann vann fyrir útvarp varð honum síðar innblástur fyrir bækur og leikrit.
Thorbjörn Egner hóf að senda frá sér barnabækur árið 1940. Hann myndskreytti sjálfur bækur sínar og þóttu teikningar hans sérlega skemmtilegar. Segja má að hann hafi slegið í gegn sem höfundur með Karíusi og Baktusi, sem kom út á bók árið 1949 en hafði áður verið flutt í útvarpi.
Dýrin í Hálsaskógi (Klatremus og de andre dyrene i Hakkebakkeskogen) fylgdi í kjölfarið á bók árið 1953 og Kardemommubærinn (Folk og røvere i Kardemomme by) árið 1955. Þessi þrjú verk, sem síðar urðu leikrit, eru vinsælustu verk Egners, en hann sendi einnig frá sér fjölda annarra bóka.
Kardemommubærinn var frumsýndur á leiksviði í Noregi árið 1956 en það var á Íslandi sem Dýrin í Hálsaskógi voru fyrst frumsýnd á leiksviði, hér í Þjóðleikhúsinu þann 16. nóvember árið 1962. Tveimur vikum seinna var verkið svo frumsýnt í Kaupmannahöfn. Verkið hafði áður verið sýnt sem brúðusýning í Oslo Nye Teater haustið 1959. Karíus og Baktus var fyrst flutt sem útvarpsleikrit árið 1946. Leikrit Egners eru sett upp reglulega í Noregi og víðar á Norðurlöndum, og hafa verið leikin víða um heim.
Egner hannaði leikmyndir og búninga við fyrstu uppsetningar á verkum sínum, og leikstýrði nokkrum uppfærslum á eigin verkum.
Brúðukvikmyndir Ivo Caprinos frá árinu 1955 sem voru byggðar á Karíusi og Baktusi og Dýrunum í Hálsaskógi nutu mikillar hylli og gerð var kvikmynd byggð á Kardemommubænum árið 1988. Ný teiknimynd byggð á Dýrunum í Hálsaskógi kom út árið 2016.
Egner þýddi barnaefni og tók saman margar lestrarbækur fyrir börn. Hann var vel að sér um gömul hús og sendi frá sér rit um þau efni. Hann ferðaðist um Norðurlöndin og Miðjarðarhafslöndin, og skoðaði þar byggingar sem urðu svo fyrirmyndir að barnateikningum hans.
Norðmenn kunna vel að meta verk Egners, barnabækur, leikrit, hljómplötur, lestrarbækur, teikningar og fleira. Í Kristiansand Dyrepark hefur verið reistur sérstakur Kardemommubær, þar sem börn og fullorðnir geta spókað sig meðal persónanna úr verkinu. Egner vann til fjölda verðlauna fyrir bækur sínar og tónlist og hann hefur verið heiðraður á margvíslegan máta í Noregi.
Mikilvægt að lesa fyrir börnin
Egner og Anna kona hans kynntust þegar þau voru átján ára. Hún var alla tíð hans helsti samverkamaður og Egner segir að Anna og börnin þeirra hafi verið hans bestu hjálparmenn, gefið honum ráð og veitt honum innblástur. Þegar börnin voru ung höfðu foreldrarnir fyrir sið að lesa fyrir þau á kvöldin. „Ég er þeirrar skoðunar að það hafi mikla þýðingu að lesa upphátt fyrir börn,” sagði Egner. „Þá upplifa stórir og smáir veröld bókanna saman og tala saman um efni þeirra. Svona kvöldstundir held ég að leggi grunninn að trausti og samheldni sem getur varað allt fram eftir unglingsárunum og kannski um alla framtíð. Þetta eykur orðaforða barnanna og nærir hugmyndaflug þeirra og sköpunargleði.”
Þegar Egner var spurður að því hvaða kröfur hann gerði til barnasýninga, svaraði hann: „Ég vonast fyrst og fremst til þess að leikritið veki spennu, og skemmti stórum sem smáum og gleðji þá. En ég óska þess að á bak við skemmtilega atburðarásina finni fólk dýpri merkingu, áminningu um að enginn er bara hetja og enginn er bara skúrkur. Og við verðum að sættast á það að við manneskjurnar erum svolítið ólíkar – og við verðum að reyna að skilja hvert annað.”
Egner var eitt sinn spurður að því hvaða persónu í Hálsaskógi hann líktist mest. Hann svaraði því til að honum væri oft líkt við Bangsapabba, en að hann myndi líka gjarna stundum vilja vera Lilli klifurmús.
Thorbjörn Egner og Þjóðleikhúsið
Þjóðleikhúsið og Thorbjörn Egner tengjast sérstökum böndum. Verk hans hafa verið samofin starfi Þjóðleikhússins í um sex áratugi, eða allt frá því að Kardemommubærinn var frumsýndur hér árið 1960. Skáldskapur Egners rataði beint að hjarta íslenskra barna, og fyrsta uppfærslan á verkinu naut svo mikilla vinsælda að hún var sett aftur á svið árið 1965. Síðan þá hefur verkið verið sett upp með reglulegu millibili, eða árin 1974, 1984, 1995, 2009 og 2020.
Leikrit Egners Dýrin í Hálsaskógi hefur einnig notið afar mikilla vinsælda í Þjóðleikhúsinu, og hefur verið sett á svið fimm sinnum hér, árin 1962, 1977, 1992, 2003 og 2012. Tvö önnur leikrit eftir Thorbjörn Egner hafa verið sýnd í Þjóðleikhúsinu, Síglaðir söngvarar árið 1968 og Karíus og Baktus árin 2001 og 2013.
Allt frá fyrstu sýningunni á Kardemommubænum áttu Þjóðleikhúsið og Thorbjörn Egner gott og náið samstarf. Egner gerði leikmynd og búninga þegar Kardemommubærinn, Dýrin í Hálsaskógi og Síglaðir söngvarar voru fyrst sýnd hér í Þjóðleikhúsinu. Leikmynda- og búningateikningar Egners voru notaðar við nýjar uppfærslur á verkum hans hér fyrstu 25 árin frá frumuppfærslu Kardemommubæjarins. Leikstjóri allra Egner-sýninganna hér í Þjóðleikhúsinu á þeim tíma var Klemenz Jónsson.
Egner kom oft til Íslands, og tengdist mörgum hér vináttuböndum. Fyrst kom hann vorið 1961 og sá lokasýningu á frumuppfærslunni á Kardemommubænum. Hann hafði fylgst með velgengi sýningarinnar, séð myndir og heyrt upptökur og orðið svo ánægður að hann hafði óskað eftir því að haldin yrði veisla í Þjóðleikhúsinu fyrir alla sem höfðu unnið að sýningunni á Kardemommubænum, og að hún yrði kostuð af höfundarlaunum hans. Veislan var haldin með glæsibrag og var Egner að sjálfsögðu boðið í veisluna. Árið 1963 sýndi Egner Íslendingum rausnarskap að nýju með því að verðlauna tvo íslenska leikara, Klemenz Jónsson og Bessa Bjarnason „fyrir ágætan leik og leikstjórn í leikritum hans, er þau voru sýnd í Þjóðleikhúsinu. ” Guðlaugur Rósinkranz þjóðleikhússtjóri afhenti verðlaunin fyrir hönd höfundarins. Klemens Jónsson hafði þá leikstýrt frumuppfærslum bæði á Kardemommubænum og Dýrunum í Hálsaskógi og hlaut hann verðlaunin fyrir leikstjórnina. Bessi Bjarnason hlaut verðlaunin fyrir „mjög skemmtilega túlkun á Mikka ref í Dýrunum í Hálsaskógi.”
Egner kom einnig til landsins árið 1965 þegar frumuppfærslan var tekin til sýninga að nýju. Egner var mjög ánægður með sýninguna og svo vænt þótti honum um viðtökur verka sinna á Íslandi að hann gaf Þjóðleikhúsinu höfundarréttartekjur af þeim í hundrað ár, með þessum orðum í gjafabréfi til Þjóðleikhússins árið 1965: „Og derfor vil jeg gjerne – i håb om at Kardemomme og Hakkebakkeskogen kommer til å bli spilt enda mange ganger i årene framover når nye barn vokser til – at Þjodleikhusid for de kommende hundre år skal ha opførelsesrettighetene for Island til begge mine komedier og at alle forfatterhonorarer for Kardemommubærinn og Halsaskogi i fremtiden går til stipendier elle andre formål som kan være til glede for teatret.“ Egner kom aftur til Íslands árið 1975, á 25 ára afmæli Þjóðleikhússins, og sá Kardemommubæinn að nýju. Við þetta tækifæri voru í fyrsta sinn veittir styrkir úr Egnersjóði, en úr honum eru veittir styrkir til að efla leiklistarstarfsemi fyrir börn og ungt fólk, og til leikhúsfólks sem hefur unnið að því að auðga barnaleikhús. Höfundarréttargreiðslur vegna sýninga á verkum Egners á Íslandi renna í sjóðinn.
Verk Egners á íslensku
Í Þjóðleikhúsinu hafa verið leikin fjögur leikrit eftir Thorbjörn Egner, Kardemommubærinn, Dýrin í Hálsaskógi, Karíus og Baktus og Síglaðir söngvarar.
Sagan um Karíus og Baktus kom út á bók á Íslandi árið 1954, og í kjölfarið fylgdu Fólk og ræningjar í Kardemommubæ og Lilli klifurmús og hin dýrin í Hálsaskógi.
Sýning Þjóðleikhússin á Kardemommubænum var hljóðrituð í Ríkisútvarpinu árið 1963 og gefin út á hljómplötu. Sýning Þjóðleikhússins á Dýrunum í Hálsaskógi var sömuleiðis hljóðrituð í Ríkisútvarpinu árið 1966 og gefin út á hljómplötu. Karíus og Baktus hafa einnig komið út á hljómplötu, geisladiski og hljóðbók. Síglaðir söngvarar voru hljóðritaðir í Ríkisútvarpinu árið 1973 og komu út á geisladiski ásamt Karíusi og Baktusi. Verkstæði jólasveinanna kom út á hljómplötu og síðar á geisladiski.
Sýning Þjóðleikhússins árið 2004 á Dýrunum í Hálsaskógi kom út á mynddiski. Tónlistin úr sýningu Þjóðleikhússins árið 2012 á Dýrunum í Hálsaskógi kom út á geisladiski.
Ný, norsk brúðumynd byggð á Dýrunum í Hálsaskógi kom út á mynddiski með íslenskum texta árið 2017.
Melkorka Tekla Ólafsdóttir