Guðný Hrund Sigurðardóttir er sjálfstætt starfandi leikmynda- og búningahönnuður sem vinnur á mörkum sviðslista og myndlistar. Hún útskrifaðist frá myndlistardeild LHÍ árið 2006 og árið 2011 útskrifaðist hún með BA-gráðu frá leikmyndadeild Royal Welsh College of Music and Drama. Hún hannar leikmynd og búninga fyrir Þetta er gjöf í Þjóðleikhúsinu í vetur og gerði hér einnig leikmynd og búninga fyrir samstarfsverkefnin Óperuna hundrað þúsund, Prinsinn og Íslandsklukkuna. Hún hefur unnið að mörgum sýningum með sjálfstætt starfandi listafólki og leikhópum, svo sem með Marmarabörnum, Sögu Sigurðardóttur, Önnu Kolfinnu Kuran og Rósu Ómarsdóttur. Guðný er einn af listrænum stjórnendum sviðslistahópsins Bíbí & blaka en hópurinn hlaut Grímuna í flokknum barnasýning ársins fyrir Veru og vatnið. Meðal verkefna sem hún hefur tekið þátt í í Borgarleikhúsinu eru Laddi, Kjarval og Góða ferð inn í gömul sár. Guðný hefur verið tilnefnd sex sinnum til Grímunnar og hún hlaut verðlaunin fyrir Moltu og Eyður.