Benedict Andrews leikstýrir Cate Blanchett í National theatre

Cate Blanchett, Benedict Andrews, Hildur Guðnadóttir og Nina Hoss. Mynd: Morgunblaðið
Það er skammt stórra högga á milli hjá Benedict Andrews. Eftir einstaka velgengni Óresteiu mun hann leikstýra Cate Blanchett og Ninu Hoss í uppfærslu Breska þjóðleikhússins á nýrri leikgerð sem hann vinnur upp úr kvikmynd Ingmars Bergman, Persona og gríska harmleiknum Elektru.
Sýnt verða í Lyttelton Theatre í London. Óskarsverðlaunahafinn Cate Blanchett mun fara með eitt aðalhlutverk sýningarinnar auk Nina Hoss en þæ léku síðast saman í Tár, þar sem annar óskarsverðlaunahafi, Hildur Guðnadóttir samdi tónlistina, en hún semur einnig tónlistina fyrir Electra / Persona.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hildur og Benedict vinna saman því Hildur samdi einnig tónlistina við eftirminnilega uppfærlsu Benedict Andrews í Þjóðleikhúsins á Lé konungi árið 2010.
Stórvirkið Óresteia var frumsýnt um jólin. Benedicts Andrews er höfundur og leikstjóri verksins en það byggir á þríleik Æskilosar. Frumsýningargestir voru heillaðir og fögnuðu listamönnum vel og lengi með standandi lófaklappi að sýningu lokinni. Í kjölfar frumsýningar hafa fjölmargir áhorfendur deilt lofi um sýninguna á samfélagsmiðlum, m.a. „stórkostlegt listaverk“, „tímamótasýning“ „Stórbrotin“, „sjaldgæfur demantur“, „leikhús eins og það gerist best“, „leikhús á heimsmælikvarða“.