19. Jan. 2026

Stórsöngleikurinn Ormstunga frumsýndur á Stóra sviðinu

Ormstunga er glænýr íslenskur söngleikur sem verður frumsýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 24. janúar næstkomandi. Söngleikurinn byggir á Gunnlaugs sögu Ormstungu og er eftir þá Hafstein Níelsson og Ólíver Þorsteinsson. Gísli Örn Garðarsson leikstýrir gríðarstórum leikhópi þar sem nánast allur leikhópur Þjóðleikhússins tekur þátt. Verkið er skrifað í anda hins heimsfræga stórsöngleiks Hamilton, sem ruddi brautina fyrir kraftmikinn samruna sögulegra atburða og krassandi tónlistar. Hér er enn ein frumsköpunin í Þjóðleikhúsinu en verkið hefur verið í þróun þar innan húss eftir að höfundarnir unnu upprunalega verkið sem nemendur við LHÍ.

Kaupa miða

Ólíver Þorsteinsson og Hafstein Níelsson, höfundar verksins

Höfundarnir upplifa drauminn – verkið þróað í Þjóðleikhúsinu eftir frumraun í LHÍ

Þeir Hafsteinn Níelsson og Ólíver Þorsteinsson eru höfundar söngleiksins Ormstungu en uppsetning verksins var jafnframt lokaverkefni Hafsteins á 2. ári sviðslistabrautar Listaháskólans. Nemendasýningin sló í gegn, var sýnd þrisvar innum fyrir troðfullum sal og öllum sem sáu var ljóst að þarna var eitthvað alveg einstakt á ferðinni. Þjóðleikhúsið ákvað að veðja á verkið, settu það í frekari þróun innanhúss með listamönnum hússins og fengu svo reyndan hóp listrænna stjórnenda að sýningunni.

Gísli Örn Garðarsson leikstýrir verkinu en hann er með öflugan hóp með sér. Jóhannes Damian R. Patreksson (þekktur sem Jói P úr “Jói P og Króli”) er meðhöfundur tónlistar og tónlistarstjóri en Liam Steel vinnur nú í fyrsta sinn sem danshöfundur á Íslandi en hann er margreyndur úr stórsöngleikjum á Broadway og West End. Ilmur Stefánsdóttir hannar leikmynd, María Ólafs hannar búningar, Garðar Borgþóruson er ljósahönnuður, hljóðhönnun er í höndum Þórodds Ingvarssonar og hljóðmynd skapar Brett Smith.

Stórkostlegur leikhópur – tuttugu leikarar og hljómsveit
Það verður vígalegur hópur leikara sem mun prýða sýninguna, en í hlutverkum Helgu, Gunnlaugs og Hrafns verða þrír ungir leikarar sem hafa heillað á síðustu misserum, þau Jakob von Oosterhout, Rán Ragnarsdóttir og Kristinn Óli Haraldsson (Króli). Þau eru umvafinn öðrum frábærum leikurum, reynsluboltum og nýjum kröftum en meðal þeirra eru Almar Blær Sigurjónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Birta Sólveig Söring Þórisdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Oddur Júlíusson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Selma Rán Lima, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Örn Árnason og Þröstur Leó Gunnarsson.

Tónlist verksins

Nýtt lag úr stórsöngleiknum er nú komið á tónlistarveitur. Lagið Kveðast á er flutt af þeim Jakobi van Oosterhout og Kristni Óla. S. Haraldssyni, en þeir fara með hlutverk Gunnlaugs Ormsstungu og Hrafns Önundarsonar í sýningunni. Hafsteinn Níelsson semur alla tónlist verksins auk þess sem Jóhannes Damian Petreksson kom að þróun tónlistarinnar á seinni stigum verksins. Til stendur að gefa alla tónlisti sýningarinnar út.

Hlusta á Kveðast á:
https://open.spotify.com/track/3m1Zv79BDO81V2nOdKt02q?si=b5930d61eec846ee
Frægasti ástarþríhyrningur Íslandssögunnar
Sagan um Gunnlaug Illugason, Hrafn Önundarsson og Helgu hina fögru Þorsteinsdóttur er líklega einn frægasti ástarþríhyrningur fornbókmenntanna og jafnvel Íslandssögunnar allrar; saga um ung skáld sem takast á. Of lengi hafa örlögin hrjáð þau en nú fyrir framan áhorfendur fá þau loksins að gera upp sín mál! Ormstunga er saga um drauma, ástir og ill örlög og spyr spurninga. Hvað gerir mann að hetju?

G
Gunnlaugs saga Ormstungu er vinsæl bók sem lesin er í fjölmörgum framhaldsskólum og efstu bekkjum grunnskóla. Þegar hafa fjölmargir skólar pantað hópferðir á sýninguna og hin frábæra fræðsludeild Þjóðleikhússins, undir stjórn Völu Fannell, mun bjóða upp á fjölbreytt fræðsluefni sem kenanrar geta nýtt til að tengja kennslu í skólum við sýninguna.

Gísli Örn Garðarsson

Gísli Örn Garðarsson hefur sett upp fjölda leiksýninga á Íslandi og erlendis, sem höfundur og leikstjóri, og hefur leikið á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi. Hann hefur starfað við fjölda virtra leikhúsa á Íslandi, í Noregi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og víðar. Meðal leikstjórnarverkefna hans eru Frost, Jólaboðið, Ellý, Fólk, staðir og hlutir, Ofviðrið, Óþelló, Í hjarta Hróa hattar, Hamskiptin, Faust, Woyzeck og Rómeó og Júlía. Gísli lék hér síðast í Ex. Hann er einn af stofnendum Vesturports. Hann hefur tvívegis hlotið Edduverðlaunin sem leikari og hefur unnið til alþjóðlegra leiklistarverðlauna fyrir leikstjórn.

Hafsteinn Níelsson

Það má finna mikinn húmor í sköpunarverkum Hafsteins Níelssonar leikara og sviðslistamanns.  Fyrir nám sitt í Listaháskóla Íslands á sviðshöfundabraut nærði hann sitt listræna hjarta á samfélagsmiðlinum TikTok undir nafninu Haddi Paddi (@haddilitli). Árum saman hefur Hafsteinn sviðsett sjálfan sig á samfélagsmiðlun (bæði á Snapchat og TikTok) og öðlast mikið fylgi þá einkum meðal ungmenna. Hafsteinn var á leiklistabraut við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og hefur stigið á svið í ýmis áhuga uppfærslum þá sérstaklega söngleikjum. Þar má nefna hlutverk hans sem Hedwig í Hedwig and the angry inch í uppsetningu leikhópsins Gnosis og uppfærslu Söngskóla Sigurðar Demetz á Legally Blonde (Ljóska í Gegn). Hafsteinn starfar einnig sem raddleikari hjá Stúdíó Sýrlandi.

Ólíver Þorsteinsson

Ólíver Þorsteinsson hefur starfað sem útgefandi hjá LEÓ Bókaútgáfu í fimm ár og gefið út allar fjölbreyttar tegundir bóka eftir fjölda rithöfunda. Sjálfur hefur hann skrifað bækur og barnaefni fyrir hlaðvarpið Inga og Draugsi. Fyrsta bókin hans, Í hjarta mínu og barnabókin Þegar leikskólakennararnir hurfu hafa verið þýddar á erlend tungumál og hlotið góðar viðtökur víða. Einnig voru bækurnar hans Langafi minn Supermann og Langafi minn Supermann – jólastund tilnefndar til Storytel awards í flokki barna og ungmenna.

Opnunartími miðasölu
Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum. Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið virka daga frá kl. 9 og frá kl. 12 um helgar og fram að sýningu.

Miðasala á vefnum, leikhusid.is er opin allan sólarhringinn.

Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið eins og miðasala.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími