11. Jan. 2026

Finnur Bjarnason skipaður óperustjóri

Í dag var tilkynnt að Finnur Bjarnason hafi verið skipaður óperustjóri – sá fyrsti eftir að Alþingi samþykkti ný lög um stofnun Óperu undir hatti Þjóðleikhússins. Það var Jóhann Páll Jóhannsson, settur menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sem skipaði Finn í starfið til fimm ára samkvæmt tillögu hæfnisnefndar. Þjóðleikhúsið óskar Finni innilega til hamingju með skipunina og hlakkar til samstarfs á næstu árum.

Langþráður draumur óperuunnenda varð að veruleika 5. júlí 2025, þegar Alþingi samþykkti frumvarp Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, um breytingar á lögum um sviðslistir, sem fólu í sér stofnun Óperu undir hatti Þjóðleikhússins. Óperan mun sinna óperulistinni á breiðum grunni, með sýningum víðsvegar um landið, með aðstöðu í Hörpu og einnig í Þjóðleikhúsinu. Óperan er hluti af Þjóðleikhúsinu og heyrir óperustjóri undir þjóðleikhússtjóra í skipuriti stofnunarinnar, jafnframt því sem lögð verður áhersla á víðtækt samráð við ólíka aðila í menningarlífinu.

Finnur mun hefja störf 15. janúar næstkomandi og þá hefst vinna við að móta og byggja upp hina nýju óperu.

Finnur Bjarnason er með meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og tvö lokapróf á meistarastigi; Postgraduate Diploma í raddþjálfun og nám í óperuflutningi (Opera Course) frá Guildhall School of Music & Drama. Hann stundaði framhaldsnám við National Opera Studio í London og hefur lokið burtfararprófi í söng frá Tónskóla Sigursveins. Finnur býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu á vettvangi óperulistar, hefur verið fastráðinn við óperuhús í Englandi og Þýskalandi og sungið við óperuhús víða um heim. Í gegnum störf sín hefur hann öðlast dýrmæta innsýn í starfsemi óperuhúsa.

„Við óskum Finni innilega til hamingju með skipunina og bindum miklar vonir við hann í starfi fyrsta óperustjóra hinnar nýju óperu. Það eru sannarlega spennandi tímar framundan og við hlökkum til að byggja óperuna upp með nýjum óperustjóra og samstarfsaðilum víðsvegar í menningarlífinu,“ segir Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.

Opnunartími miðasölu
Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum. Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið virka daga frá kl. 9 og frá kl. 12 um helgar og fram að sýningu.

Miðasala á vefnum, leikhusid.is er opin allan sólarhringinn.

Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið eins og miðasala.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími