23. Des. 2025

Þjóðleikhúsið fær öflugan liðsauka

Tveir nýir starfsmenn bætast um þessar mundir í öflugan hóp Þjóðleikhúsfólks. Ráðið er í tvær stöður í kjölfar skipulagsbreytinga sem hugsaðar eru til að efla Þjóðleikhúsið og sækja fram en á dögunum voru samþykkt lög frá Alþingi um að ný ópera hæfi starfsemi innan veggja Þjóðleikhússins og einnig var tilkynnt um nýbyggingu með nýju sviði. Skipulagsbreytingarnar gera leikhúsið betur í stakk búið til að mæta þessum spennandi verkefnum og auka skilvirkni.

Þóra Gréta Þórisdóttir var ráðin í nýja stöðu framkvæmdastjóra fjármála og rekstrar í nóvember 2025. Hún hefur yfirgripsmikla reynslu af stjórnun og fjármálastjórn. Hún var nú síðast framkvæmdastjóri fjármála hjá Nóa Síríus og þar á undan í mörg ár hjá Coca-Cola Europacific Partners, bæði í Svíþjóð og á Íslandi.  Hún situr líka í stjórn RARIK og Samhjálpar. Þóra lauk meistaranámi í stefnumiðaðri stjórnun við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og lærði auk þess verðbréfaviðskipti.

Eyjólfur Gíslason er nýr mannauðsstjóri Þjóðleikhússins og kemur með verðmæta reynslu að leikhúsinu. Síðastliðin ár hefur hann verið deildarstjóri á flugrekstrarsviði hjá Icelandair þar sem mannauðsmál voru stór hluti af starfi deildarinnar. Hann lauk meistaraprófi í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst með áherslu á mannauðsstjórnun. Einnig hefur hann starfað sem fjölmiðlafulltrúi, ráðgjafi og fyrirlesari.

Þóra hefur þegar hafið störf en Eyjólfur mun bætast í hópinn fljótlega á nýju ári. Þjóðleikhúsið býður Þóru og Eyjólf velkomin í hópinn og fagnar þessum öfluga liðsauka.

Starfsfólk hlakkar líka til að taka vel á móti nýjum óperustjóra en gert er ráð fyrir því að skipað verði í stöðuna innan skamms.

Magnús Geir Þórðarson segir „Við fögnum Þóru og Eyjólfi innilega. Þeirra víðtæka þekking mun án nokkurs vafa efla okkar góða hóp og styðja við frekari sókn leikhússins okkar á næstu árum.“

„Það er heiður að fá að ganga til liðs við Þjóðleikhúsið og ég hlakka til að vinna með hæfileikaríku starfsfólki; efla mannauðinn og leggja mitt af mörkum til þess að gera góðan vinnustað enn betri,“ segir Eyjólfur Gíslason.

Þóra Gréta tekur í sama streng: „Það felast mikil tækifæri í rekstri Þjóðleikhússins sem ég hlakka til að takast á við með því góða fólki sem þar er fyrir og leggja mitt af mörkum til að styðja við starfsemina. Það er spennandi vegferð fram undan í þessu skapandi og síkvika umhverfi.“

Opnunartími miðasölu yfir hátíðarnar
23.des 12:00 – 21:00
24.des 10:00-14:00
25.des LOKAÐ
26.des 16:00 – 19:00
27.des 12:00 – 19:00
28.des 12:00 – 19:00
29.des 14:00 – 18:00
30.des 14:00 – 19:00
31.des LOKAÐ
1.jan LOKAÐ

Miðasala á vefnum, leikhusid.is er opin allan sólarhringinn.

Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið eins og miðasala.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími