11. Nóv. 2025

Brjóstmynd af Önnu Borg færð Þjóðleikhúsinu að gjöf


Þjóðleikhúsinu var á dögunum færð brjóstmynd af leikkonunni Önnu Borg sem breski listamaðurinn Richard Lee gerði á sínum tíma, en sonur hans Raymond Ásgeir Lee sem hefur varðveitt styttuna sannfærðist um það í nýlegri Íslandsheimsókn að styttan ætti heima í leikhúsinu.

Anna Borg (1903-1963) var af mikilli leikaraætt, en hún var dóttir Stefaníu Guðmundsdóttur, sem var fremsta leikkona þjóðarinnar um árabil. Anna lék fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur, en hélt svo til leiklistarnáms í Kaupmannahöfn og lauk prófi úr skóla Konunglega leikhússins 1927. Þau Haraldur Björnsson útskrifuðust sama ár og voru fyrstu Íslendingarnir til að ljúka formlega námi við leiklistarskóla. Anna starfaði lengst af við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Hún giftist Poul Reumert, einum fremsta og virtasta leikara Dana á síðustu öld. Þau komu nokkrum sinnum til Íslands og léku hér. Anna lék burðarhlutverk í tveimur sýningum í Þjóðleikhúsinu árið 1951, Heilagri Jóhönnu og Ímyndunarveikinni. Anna var einnig óperuleikstjóri um árabil. Hún fórst í flugslysi langt fyrir aldur fram árið 1963.

Richard Lee, breskur listamaður og myndhöggvari, kom til Íslands skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina eftir að hafa svarað auglýsingu þar sem óskað var eftir myndhöggvara til starfa í Ireland – sem reyndist vera prentvilla, því leitað var að myndhöggvara til Íslands til að móta vaxmyndir fyrir safn eftirmynda úr vaxi af frægum einstaklingum sem Óskar Halldórsson útgerðarmaður og börn hans stofnuðu og gáfu íslenska ríkinu árið 1951. Í safninu voru eftirmyndir af átján Íslendingum og fimmtán útlendingum. Aðeins ein mynd af konu var í safninu, eftirmynd af Önnu Borg. Richard Lee mótaði m.a. hina þekktu brjóstmynd af Halldóri Laxness sem prýðir Kristalsal Þjóðleikhússins. Mun hann hafa haft vinnuaðstöðu í Þjóðleikhúsinu, á vesturlofti hússins, á árunum fyrir vígslu hússins. Á Íslandi kynntist Richard Lee Ragnheiði Björgvinsdóttur, síðar eiginkonu hans, og flutti með henni til Englands þar sem þau eignuðust fjóra syni, en Ragnheiður átti tvö börn fyrir.

Brjóstmyndin af Önnu Borg sem Þjóðleikhúsið fékk nú að gjöf prýddi æskuheimili Raymonds Lee. Í gegnum systurdóttur sína, Auði Elvu Kjartansdóttur, hafði hann svo samband við Þjóðleikhúsið til að gefa leikhúsinu styttuna.

Styttunni af Önnu Borg verður fundinn staður í Þjóðleikhúsinu í gestarými hússins, en hún er glæsileg eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. Nokkrir ættingjar Richards og Önnu Borg komu saman á Kristalsal Þjóðleikhússins við þetta tækifæri.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum. Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið virka daga frá kl. 9 og frá kl. 12 um helgar og fram að sýningu.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími