08. Nóv. 2024

Vertu úlfur sýnt í Póllandi

Í kvöld sýnir Þjóðleikhúsið sýninguna  Vertu úlfur í Zeromski leikhúsinu í Kielce í Póllandi en leikhúsin tvö hafa nú átt í samstarfi um nokkurra ára skeið. Tvisvar hafa pólskir leikhópar frá Zeromski leikhúsinu sett upp sýningar í Þjóðleikhúsinu en nú er komið að því að íslenskt leikverk fari á fjalirnar í Póllandi.

116. sýningin á verðlaunasýningunni Vertu úlfur á pólskri grundu

Þetta er 116. sýningin á Vertu úlfur sem fram fer í Zeromski leikhúsinu í Kielce í kvöld og það er gríðarleg tilhlökkun í leikhópnum sem samanstendur þó aðeins af einum leikara, Birni Thors. Leikstjóri og höfundur verksins er Unnur Ösp Stefánsdóttir en verkið vann hún upp úr magnaðri og einlægri bók Héðins Unnsteinssonar. Auk þeirra er tæknifólk á vegum Þjóðleikhússins með í för og mun stýra sýningunni í kvöld fyrir fullu húsi.

Fjölmiðlar í Póllandi hafa verið afar spenntir fyrir því að ræða við íslensku gestina og voru aðstandendur sýningarinnar og leikhússtjórar beggja leikhúsanna í fjölda viðtala í vikunni. Stefan Żeromski leikhúsið í Póllandi er einstaklega glæsilegt. Það er eitt það elsta í landinu og var opnað að nýju í haust eftir miklar endurbætur sem hafa staðið í tvö ár.

Spennandi að sjá hvernig sýningin muni hreyfa við pólskum áhorfendum

Sýningin Vertu úlfur hreyfði rækilega við áhorfendum á Íslandi en afar fátítt er að sýning sé sýnd yfir 100 sinnum á Stóra sviðinu. Sýningin hlaut sjö Grímuverðlaun: Sýning ársins, leikrit ársins, leikstjóri ársins, leikari ársins í aðalhlutverki, leikmynd ársins, lýsing ársins og hljóðmynd ársins. Titillag sýningarinnar hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin í opnum flokki. Það er því afar spennandi að sjá hvernig sýningin muni leggjast í pólska leikhúsgesti, en hún verður sýnd með pólskum og enskum texta.

Gæfuríkt samstarf Þjóðleikhússins og Stefan Żeromski leikhússins

Þjóðleikhúsið hefur átt í samstarfi við Stefan Żeromski leikhúsið í Póllandi um all nokkurt skeið. Tvisvar hefur leikhópur frá Póllandi komið og sýnt í Þjóðleikhúsinu. Fyrst vorið 2023 með sýninguna Gróskan í grasinu og aftur nú í haust þegar verkið Sjóndeildarhringurinn var sýnt á Stóra sviðinu. Fullt var út úr dyrum í bæði skiptin og fjöldi Pólverja á Íslandi nutu sýninganna á sínu móðurmáli. Á meðal leikara í Sjóndeildarhringnum var Tomasz Kot, einn þekktasti leikari Pólverja.

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími