10. Okt. 2024

Endurbætt aðstaða í Kassanum og á Litla sviðinu

Frá því að Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950 hefur á ólíkum tímabilum verið unnið að endurbótum á húsnæði þess til að mæta breyttum væntingum og þörfum gesta og starfsmanna. Að undanförnu hafa talsverðar umbætur verið gerðar á aðstöðu gesta í aðalbyggingunni, aðgengi hefur verið bætt með lyftum og römpum, og veitingaþjónusta hefur verið efld. Ljósabúnaður hefur verið endurnýjaður á Stóra sviði leikhússins og Þjóðleikhúskjallarinn gekk í endurnýjun lífdaga árið 2020. Nú stendur yfir endurnýjun á flugturni aðalsviðsins en flugkerfið, sem notað er til að stýra ljósa- og sviðsrám, er upprunalegt eða frá byggingarárum leikhússins á fimmta áratug síðustu aldar. Vonast er til að í náinni framtíð verði ráðist í byggingu nýs Svarts kassa við hlið Þjóðleikhússins en síðustu þrjá áratugi hefur verið rætt um að leikhúsið þurfi á því að halda að hafa svið sem rúmi um 250-300 manns í sæti. Í greinargerð með frumvarpi um Þjóðaróperu er bent á þessa þörf.

Hús Jóns Þorsteinssonar – Kassinn og Litla sviðið 

Sýningarhald Þjóðleikhússins hefur farið fram í húsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu um áratugaskeið. Húsið var reist árið 1934 og notað sem íþróttahús í tæpa fjóra áratugi. Leiksviðið í kjallara hússins, Litla sviðið, var opnað árið 1986 og Kassinn, leiksviðið á miðhæðinni, árið 2006. Þá tók Kassinn við af Smíðaverkstæðinu sem næststærsta leiksvið leikhússins. Árið 2022 var ráðist í gagngerar umbætur á forsalnum fyrir Kassann, en hönnunin vísar í sögu hússins sem íþróttahúss. Hönnuðir voru Hálfdán Petersen og Þórður Orri Pétursson, en verkinu var stýrt af FSRE í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Umbætur á húsi Jóns Þorsteinssonar og bætt aðgengi 2024-2025 

Nú, haustið 2024, hefur verið settur upp bráðabirgðarampur til að bæta aðgengi að Kassanum. Hann er þó bara fyrsta skrefið í langþráðum framkvæmdum sem nú eru að hefjast. Ný viðbygging mun stórbæta aðgengi allra að húsi Jóns Þorsteinssonar með nýjum inngangi á vesturhlið hússins. Samhliða því verður sett upp lyfta innandyra sem bætir aðgengi að neðri hæð, þar sem Litla sviðið er, og einnig að efri hæð þar sem aðstaða listamanna og annarra starfsmanna er. Jafnframt verður ráðist í umbætur á efri og neðri hæð hússins sem miða að því að gera aðstöðuna fallegri og aðgengilegri. Útlit verður í samræmi við forsal Kassans.

Framkvæmdin 

Umsjón framkvæmda: FSRE, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir.
Arkitektar: Andrúm arkitektar.
Innanhúshönnun og lýsing: Þórður Orri Pétursson og Hálfdán Petersen.

Verkefnið er unnið í nánu og góðu samstarfi við Menningar- og viðskiptaráðuneytið.

Við biðjumst velvirðingar á raski sem framkvæmdin kann að valda.  

Áætlað er að umbótum á húsi Jóns Þorsteinssonar ljúki í árslok 2025, en sýningarhald mun hefjast í húsinu eftir breytingar í upphafi leikárs 2025-2026.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími