Ímyndunarveikin leiklesin
Miðvikudaginn 26. október kl. 17 munu leikarar Þjóðleikhússins leiklesa Ímyndunarveikina eftir Molière í tilefni af 400 ára afmæli hins mikla franska meistara gamanleikjanna. Lesin er ný þýðing Sveins Einarssonar á verkinu.
Leikstjóri er Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Leikarar eru Sigurður Sigurjónsson í hlutverki Argans, Þórey Birgisdóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Pálmi Gestsson, Almar Blær Sigurjónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Guðjón Davíð Karlsson, Sigurbjartur Sturla Atlason, Oddur Júlíusson, Birgitta Birgisdóttir, Hákon Jóhannesson og Ebba Katrín Finnsdóttir.
Ímyndunarveikin var sýnd strax á öðru leikári Þjóðleikhússins árið 1951 í þýðingu Lárusar Sigurbjörnssonar og leikstjórn Óskars Borg, en þá fór Lárus Pálsson með hlutverk Argans, og aftur árið 1976 í þýðingu Lárusar og leikstjórn Sveins Einarssonar, en þá var Bessi Bjarnason í hlutverki Argans.
400 ára afmælis Molières (1622-1673) er nú minnst víða. Fyrir skemmstu stóðu Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við HÍ, Sendiráð Frakklands á Íslandi og Þjóðleikhúsið að vel heppnuðu málþingi með leiklestrum á brotum úr verkum skáldsins.
Leiklesturinn á Ímyndunarveikinni er í Kassanum miðvikudaginn 26. október og hefst kl. 17.00.