Pussy Riot
Blanda af tónleikum og gjörningalist
Þessi sýning Pussy Riot er sambland af tónleikum, gjörningalist og pólitískum viðburði. Hún hefur í sumar verið sýnd víðs vegar um Evrópu og hlotið mikla athygli og lof. Sýningin var að hluta til æfð og þróuð í Þjóðleikhúsinu nú á vordögum, rétt eftir að Masha Alyokhina forsprakki hópsins kom sér hingað undan klóm rússnesks óréttlætis.
Sýningin er skipulögð í samhengi við fyrstu yfirlitssýningu Pussy Riot sem opnar í Kling & Bang í lok nóvember.
Saga andófs og uppreisnar gegn kúgun og ritskoðun
Pussy Riot er upphaflega feminísk pönkhljómsveit sem einsetti sér að vekja athygli á réttindabaráttu minnihlutahópa og berjast gegn Pútín og stefnu hans. Pussy Riot vakti heimsathygli þegar fimm meðlimir fluttu gjörninginn „pönkbæn“ í dómkirkju í Moskvu og birtu síðar myndband af atburðinum á netinu. Í kjölfarið voru þrjár þeirra dæmdar til tveggja ára refsivistar í vinnubúðum. Rússnesk yfirvöld sættu mikilli gagnrýni af alþjóðasamfélaginu og þótti dómurinn aðför að málfrelsi. Konurnar voru þó ekki látnar lausar fyrr en 21. mánuði síðar eftir kröftug mótmæli mannréttindasamtaka víða um heim.