
– leikprufur


– leikprufur

Við leitum að hressum krökkum á aldrinum 10 – 15 ára
Þjóðleikhúsið mun frumsýna stórsýningu um Línu Langsokk á Stóra sviðinu næsta haust. Lína Langsokkur er eitt ástsælasta leikverk allra tíma fyrir yngstu kynslóðina – og hver kynslóð þarf að kynnast sterkustu stelpu í heimi.
Ætíð er mikill spenningur fyrir því hver leikur Línu og vini hennar Tomma og Önnu, auk allra hinna. Leikararnir sem fara með öll þessi hlutverk og önnur verða kynntir í mars en á sama tíma hefjast prufur fyrir börn sem hafa áhuga á að taka þátt í sýningunni við hlið atvinnuleikaranna.
Í tengslum við sýninguna verða haldnar prufur fyrir krakka á aldrinum 10-15 ára, (fædd 2009 til og með 2015) en alls er verið að leita að sextán krökkum til þess að deila átta hlutverkum.
Umsóknarfrestur er liðinn.
Skráningarfrestur var til 10. mars.


Nánari upplýsingar um leikprufur
Skráningu lýkur 9. mars og mun umsækjendum berast boð í prufur fyrir 15. mars. Prufurnar fara svo fram í Þjóðleikhúsinu undir síðari hluta mars og standa fram í miðjan apríl. Niðurstöður úr prufunum verða birtar fyrir páska.
Í fyrstu umferð prufanna verður lögð áhersla á dans og söng. Við biðjum umsækjendur að undirbúa 30 sekúndna lagabút að eigin vali til þess að syngja í prufunum. Einnig verður kenndur dans í prufunum og farið í leiki. Og munið: aðalatriðið er að hafa gaman af þessu! Túlkunin og leikgleðin skiptir mestu máli.
Hafir þú einhverjar spurningar er þér velkomið að senda okkur fyrirspurn á netfangið prufur@leikhusid.is.


Fyrirkomulag vegna þátttöku barna í prufum og sýningum í Þjóðleikhúsinu
Upplýsingar fyrir forráðamenn barna sem hyggjast taka þátt í leikprufum fyrir þátttöku í leiksýningunni Lína Langsokkur
Þjóðleikhúsið er atvinnuleikhús og kappkostar að sviðsetja sýningar í hæsta gæðaflokki. Fagmennska og vönduð vinnubrögð eru í heiðri höfð. Stundum er börnum boðin þátttaka í sýningum leikhússins eins og raunin er nú við uppsetningu á Línu Langsokki.
Listrænir stjórnendur, með leikstjórann í fararbroddi, hafa það hlutverk að velja þau börn sem helst eru talin henta til þátttöku í sýningunni. Við valið er horft til margra ólíkra þátta sem byggja á faglegu mati listrænna stjórnenda á því hvaða einstaklingar eru líklegastir til að henta í þau tilteknu hlutverk sem leitað er að börnum í, og hvaða einstaklingar eru líklegir til að standast þær kröfur sem vinnan krefst og njóta þess að taka þátt í því ævintýri sem vinnan í leikhúsinu er.
Leikhúsið leitar að krökkum fæddum á árunum 2009 til 2015 til að leika átta persónur í sýningunni, en sextán börn verða valin til þáttöku.
Öllum börnum búsettum á Íslandi sem fædd eru á árunum 2009 til 2015 er boðið að taka þátt með því að senda inn rafræna umsókn. Við innsendingu þarf að skrá netfang og samþykki foreldra/forráðamans. Umsækjendur frá staðfest boð í prufur fyrir 15. mars. Í prufunum munu svo listrænir stjórnendur hitta alla umsækjendur og fækka í hópi þeirra sem til greina koma.
Öll sem taka þátt fá svar í tölvupósti, á netfang forráðamans hvort þau komist áfram eða ekki. Ekki er mögulegt að útskýra fyrir hverju og einum umsækjanda sem ekki kemst áfram af hverju hann var ekki valin til áframhaldandi þátttöku. Þeim sem komast áfram er boðið í áframhaldandi prufur.
Við lok prufuferlisins verður hópi barna boðin þátttaka í sýningunni, nánari forsendur eru kynntar börnum og forráðamönnum og samningur gerður. Meðan á æfingum og sýningum stendur sjá sérstakir umsjónarmenn um börnin í leikhúsinu, aðstoða þau, styðja og gæta að öryggi þeirra og velferð.
Börn í sýningum fá greitt fyrir þátttöku sína skv. sérstökum taxta þar um. Gert er ráð fyrir að þátttakendur lagi frí og annað að sýningaráætlun leikhússins, gert er ráð fyrir að aðrar tómstundir víki fyrir vinnu í leikhúsinu og líklegt er að æfingar rekist að einhverju leiti á við skólatíma sem unnið er í samráði við viðkomandi skóla. Fulltrúar leikhússins kappkosta að eiga í góðu sambandi við foreldra barnanna með það sameiginlega verkefni að börnin blómstri í verkefninu.
Leikhúsið hefur þá von að leiksýningin Lína Langsokkur verði stórfengleg sýning sem muni hrífa áhorfendur á öllum aldri en jafnframt vera einstaklega ánægjuleg upplifun fyrir alla þátttakendur í verkefninu.
Meðferð gagna
Meðferð gagna er samkvæmt persónuverndarstefnu Þjóðleikhússins. Gögnin sem send eru inn eru vistuð á öruggu og aðgangsstýrðu svæði Þjóðleikhússins. Aðgang hafa einungis listrænir stjórnendur sýningarinnar auk valins hóps starfsmanna Þjóðleikhússins sem munu fara yfir prufurnar. Innsendingum verður eytt að prufum loknum.

