17. Jan. 2025

Yerma gengur aftur

eftir Gunnþóru Guðmundsdóttur

Rætur Yermu liggja í spænskri mold, þ.e. í verki Federico García Lorca (1898-1936) sem frumsýnt var í Madrid fyrir 90 árum eða árið 1934. Þetta var annað verk hans í því sem seinna hefur verið kallaður þríleikur, þ.e. Blóðbrúðkaup (Bodas de sangre) sem var frumsýnt 1933 og svo Hús Bernörðu Alba (La casa de Bernarda Alba) sem var frumsýnt nokkuð eftir lát Lorca eða 1945 og þá í Buenos Aires, því Franco-stjórnin hafði bannað öll hans verk á Spáni. Þessi verk hafa öll verið sýnd hér á landi og sum oftar en einu sinni.*1

Lorca tilheyrði kynslóð höfunda og listamanna sem kennd er við 1927, kynslóð sem blómstraði með auknu frjálslyndi í aðdraganda annars lýðveldisins á Spáni (1931-1936/9), í Madrid þar sem vindar framúrstefnu og tilraunamennsku blésu hressilega, þótt vissulega hafi þeir vindar ekki endilega náð til alls landsins. Lorca var frá Andalúsíu og heillaðist snemma af alþýðumenningu héraðsins sem var þó nokkuð mótuð af Roma-fólki og arabískri arfleifð. Hann átti mikinn þátt í því ásamt tónskáldinu Manuel de Falla að auka hróður flamenco eða cante jondo og svo ferðaðist hann um landið ásamt félögum sínum með ferðaleikhúsinu La Barraca en þar var einmitt ætlunin að færa alþýðunni leikhúsið heim, rjúfa þá hefð sem hafði myndast að leikhús væri einungis fyrir elítuna.

Konur eru í forgrunni í þessum þremur elstu verkum Lorca, hlutskipti þeirra og aðstæður í íhaldssömu, kaþólsku hefðarveldi þar sem hlutverk þeirra er fyrirfram skilgreint og valdi þeirra settar þröngar skorður, þ.e. þær áttu allt undir karlmönnunum sem stóðu þeim næst, föður eða eiginmanni. Með öðru lýðveldinu urðu þó umtalsverðar breytingar gerðar á lagaumhverfi kvenna, til dæmis með réttinum til skilnaðar og fleiri umbótum. Þessum réttindum héldu þær þó ekki lengi því eftir borgarastyrjöldina (1936-1939) færði Franco allt til fyrra horfs og enn á ný skyldu þær verða ‚englar heimilisins‘ og hlýða skilyrðum hefðarveldis og kirkju.

Í þessu samhengi verður Yerma til. Yerma er ekki kvenmannsnafn á spænsku heldur merkir ófrjór jarðvegur og gefur því til kynna viðfangsefni verksins. Yerma er gift kona í litlu spænsku þorpi sem bíður þess óþreyjufull að eignast barn. Allt kemur fyrir ekki og á þeim u.þ.b. fjórum árum sem verkið spannar duga engin heimilisráð, bænir eða særingar til þess að uppfylla þá ósk hennar. Konurnar í þorpinu leggja til ýmis ráð og leiðir til að bæta úr þessu. Gefið er í skyn að Juan, eiginmaður hennar, sé sá sem geti ekki eignast börn og því ætti hún að fá sér elskhuga sem gæti bjargað málum, en Yerma þvertekur fyrir slíkt, enda heiður fjölskyldunnar að veði í hennar huga. Heiður er einmitt eitt af gegnumgangandi þemum í verkum Lorca. Þau sýna oft á tíðum að hugmyndin um heiður sé eyðandi afl sem ógni lífi og limum þeirra sem um véla eins og við þekkjum vel úr menningarsögunni, hvort sem það er úr Íslendingasögum eða Shakespeare. Juan telur þó að Yerma sé alls ekki að virða heiður fjölskyldunnar með flandri sínu um þorpið í leit að lausn og vill binda hana enn fastar við heimilið, sem henni finnst þó vera eins og gröf úr því engin eru börnin.

Spænska þorpið er hið fullkomna sögusvið, auk þess sem það hefur sérstaka stöðu í (menningar)sögu Spánar. Í því þrífst hið hefðbundna bændasamfélag, hinn ‚sanni‘ Spánn; þar eru allir með nefið niðri í hvers manns koppi, valdið er skýrt, hefðin klár og félagslega taumhaldið þétt.

Eins og fyrr segir var Lorca mjög upptekinn af möguleikum leikhússins og leit til leikhúshefðarinnar í sínum skrifum allt frá fornklassík til brúðuleikhúss. Í verki hans gætir þessara áhrifa, hann notar til dæmis þvottakonurnar sem eins konar grískan kór sem tjáir viðhorf þorpsins til Yermu og þá er textinn oft á mörkum ljóðs og prósa, en Lorca var auðvitað líka, og kannski einkum og sér í lagi, ljóðskáld.

Leikskáldið og leikstjórinn Simon Stone (f. 1984) í sinni meðferð á leikriti Lorca tekur það úr þessu samhengi sem við fyrstu sýn virðist vera meginstoðir þess; þorpið hefur breyst í borg, félagslega taumhaldið er gjörólíkt og hefðarveldið í upplausn (þótt við virðumst eiga ákaflega erfitt með að sleppa úr klóm þess, það rís alltaf aftur upp eins og fuglinn Fönix tilbúið til að færa okkur aftur í sína fjötra, samanber Trump og aðra talíbana þessa heims).

Farinn er líka kórinn, ljóðið, heiður fjölskyldunnar (og þó), verkið (og Yerma) hefur verið berstrípað og spurt er hvað sjáum við þá?

Þessi aðferð hefur dugað Stone vel í uppsetningum sínum á eldri verkum, að fletta ofan af þeim lögum af hefð, umhverfi, túlkunarsögu og viðtökum sem myndast hafa í lífi verksins og færa til samtímans svo áhorfendur þurfa að endurhugsa merkingu verksins og erindi. Aðalpersóna verksins (Y) er nútímakona á framabraut (til að notast við klisjurnar), gift bisnessmanninum Jóni, barneignir hafa ekki verið á dagskrá til þessa, en nú hefur eitthvað breyst, einhver löngun vaknað hjá henni, sem tekur hana sterkum tökum.

Á myndina vantar Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, leikkonu

Við lifum á stundum í þeirri villutrú að búið sé að leysa úr öllum helstu málum á okkar tímum. Að tæknin, nútíma vísindi, frjálslyndi, aukin mannréttindi, svokallaðar framfarir, hafi leyst okkur undan öllum vanda fortíðar. (Vissulega höfum við staðið okkur vel í að finna upp ný vandamál eins og augljóst er þegar við horfum á jörðina brenna, en engu að síður er þetta hugsun sem er kunnugleg frá okkar tímum.) Ófrjósemi? Ekkert mál, tæknifrjóvgun bjargar málunum. En öll þekkjum við dæmi um hið gagnstæða, tæknifrjóvgun verður þá alls ekki lausnin, heldur ný tegund af helsi til að binda konur með. Líkami konunnar breytist í vígvöll og sálarlífið fylgir með og allt tal um frelsi frá hefðarhugsun og kynhlutverkum leysist upp.

Eins og fyrr segir eru konur oft í forgrunni í verkum Lorca. Hann stóð á mörkum nútímavæðingar og hefðarveldis, frjálslyndis nýrra tíma og þröngsýni kirkjunnar. Hann var hinsegin á tímum þar sem örlítil frjálsræðisglufa hafði myndast sem lokaðist aftur hratt. Hann laut í lægra haldi fyrir öflum sem vildu koma böndum á frjálsa hugsun og kveða niður kröfur um mannréttindi, var drepinn fyrir líferni sitt og skoðanir. Hann skrifaði um konur, veitti þeim athygli, stöðu þeirra innan stofnunar hjónabandsins, innan hefðarveldisins, innan þröngsýni valdakerfisins. Í ljósi þessa má vera ljóst að það er enn full ástæða til að veita verkum hans athygli, spyrja þau spurninga, endurvekja, endurskrifa og hugsa þannig uppá nýtt um vanda fortíðar –og okkar tíma.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

Yerma eftir Lorca var gefin út í tvímálaútgáfu í þýðingu Karls Guðmundssonar og Margrétar Jónsdóttur Njarðvík, sem einnig ritar inngang, af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Þá hefur stofnunin einnig gefið út tvímálaútgáfu af ljóðum Lorca, Gustur úr djúpi nætur: Ljóðasaga Lorca á Íslandi, með formála eftir Hólmfríði Garðarsdóttur.

1. Uppsetningar á leikritum Lorca á Íslandi. Yerma: Þjóðleikhúsið 1987.
Hús Bernhörðu Alba/Heimili Vernhörðu Alba: LR 2013 og 1966,
Þjóðleikhúsið 1989, LA 1989. Blóðbrullaup: Þjóðleikhúsið 1993 og 1959

 

Kaupa miða

 

Lesa leikskrá

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími