Kardemommubærinn kveður fyrir troðfullu húsi
Þar kom að því. Sýningum á Kardemommubænum lauk í dag eftir ríflega 100 sýningar þar sem þakið ætlaði að rifna af húsinu. Við þökkum þeim tugum þúsunda leikhúsgesta á öllum aldri sem komu og glöddust með okkur. Síðustu tvö ár hafa verið viðburðarík; Tommí og Kamílla hafa vaxið þrisvar upp úr búningunum sínum, Ræningjar glöddu börn í bólusetningu í Laugardalshöll og gleði Kardemommubæjar teygði sig út á tröppur Þjóðkeikhússins þegar samkomubann ríkti. Nú styttist í að vinna hefjist við næstu fjölskyldusýningu og þar verður aldeilis öllu tjaldað til. Draumaþjófurinn fer upp á Stóra sviðið á næsta leikári og verður ærslafullur, stórhættulegur og umfram allt, bráðskemmtilegur söngleikur fyrir alla fjölskylduna.
Samnefnd bók Gunnars Helgasonar hefur heldur betur slegið í gegn. Það er sannkallað stórskotalið listrænna stjórnenda sem vinna sýninguna; Leikstjórn er í höndum Stefáns Jónssonar sem nú fyrir skemmstu stýrði rómaðri uppsetningu á Sjö ævintýrum um skömm. Björk Jakobsdóttur skrifar leikgerðina, Ilmur Stefánsdóttir er leikmyndahöfundur, Filippía Elísdóttir hannar búninga, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson semur tónlist verksins og verður tónlistarstjóri í sýningunni og lýsing er í höndum Björns Bergsteins. Lee Proud er danshöfundur en hann hefur stýrt dansi og hreyfingum í mörgum stórsýningum hér á landi á undanförnum árum. Áhorfendur mega búast við æsispennandi upplifun með litríkum og skemmtilegum persónum, þar sem tekist er á við margt sem skiptir okkur svo miklu máli í dag!