14. Sep. 2020

Ég vil búa til leikhús sem vekur fólk

Suður-afríski leikstjórinn Yaël Farber kemur til Íslands til að leikstýra Framúrskarandi vinkonu og hlakkar til ferðalagsins með Lilu, Lenú og áhorfendum Þjóðleikhússins.

Þegar suður-afríski leikstjórinn Yaël Farber fékk fyrr á árinu símtal frá Magnúsi Geir þjóðleikhússtjóra og heyrði hvert erindið var ætlaði hún vart að trúa eigin eyrum. „Þetta var dásamleg tímasetning. Ég hafði tekið Napólí-fjórleik Elenu Ferrante með mér til Kúbu og gleypt allar bækurnar í mig á örstuttum tíma. Bókstaflega sama dag og ég lauk við fjórðu bókina hringdi Magnús, en þá höfðu nýlega orðið breytingar á mínum áætlunum. Ég treysti svona tilviljunum og þekktist boðið þegar í stað.“

Framúrskarandi vinkona er fyrsta uppsetning Yaël á Íslandi en hún hefur um árabil verið í fremstu röð leikstjóra á alþjóðavísu og meðal annars leikstýrt rómuðum sýningum í mörgum helstu leikhúsum Bretlands, á Írlandi, í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Kanada þar sem hún er nú búsett. Einnig hafa margverðlaunaðar sýningar hennar farið afar víða, allt frá Edinborg til Hong Kong, og jafnan vakið athygli fyrir áhrifaríka og óvænta sviðsetningu. Gagnrýnandi The Guardian gaf uppsetningu Yaël á The Crucible eftir Arthur Miller fullt hús stjarna og sagði sýninguna þrungna af hráum lífskrafti sem hann hefði aldrei fyrr séð á sviði.

Þegar ég ræddi við Yaël í gegnum tölvu sat hún í hitasvækju á heimili sínu í Montréal og sagðist hlakka til að komast í svalara loftslag á Íslandi og takast á við heim Elenu Ferrante ásamt leikhópi Þjóðleikhússins. Aðspurð segir hún það draga enn betur fram mikilvæga þætti í vinnu sinni sem leikstjóra að vinna með hópi sem notar tungumál á sviðinu sem hún talar ekki sjálf, en því hefur hún meðal annars kynnst í upprunalandi sínu þar sem töluð eru ellefu opinber tungumál auk fjölda annarra mála. „Þá reiði ég mig á afar nákvæm samskipti og þarf að fullvissa mig um að leikararnir hafi skilið það sem ég vil tjá þeim. Slík vinna dregur athyglina sífellt að því hvaða sögur kalla á að vera settar á svið – hvernig líkaminn skrifar sögur í rýmið, hvernig við segjum sögur. Tilfinningin fyrir þessu magnast upp í bæði mér og leikurunum því ég fylgist svo grannt með hinni líkamlegu tjáningu. Við drögum saman upp myndir sem teygja sig út fyrir mörk tungumálsins.“ Yaël bendir á að leikhúsið felli múra á milli fólks með því að setja á svið einstakar sögur sem fljótt á litið gætu bent til þess að við séum ólík, en sýna okkur í raun sammannlegar tilfinningar. „Rétt eins og við getum grátið yfir kvikmyndum frá öðrum menningarheimum því þær hreyfa við okkur. Við getum horft á sögur á tungumálum sem við þekkjum ekki.“

Sögusvið Napólí-fjórleiksins er Yaël hugleikið og þær aðstæður sem vinkonurnar Lenú og Lila alast upp við. Þrátt fyrir fegurðina og fróðleiksþorstann sem í þeim býr einkennist umhverfi þeirra af fátækt, harðneskju og skuggum fortíðar. „Sú staðreynd að þetta er veröldin skömmu eftir stríð, skömmu eftir fasismann, skömmu eftir helförina … Ég þekki það á eigin skinni hvernig er að búa í þjóðfélagi þar sem ofbeldi er alltaf yfirvofandi og er notað til að ógna fólki,“ segir hún og vísar til uppvaxtaráranna í Jóhannesarborg á tímum aðskilnaðarstefnunnar. „Frelsun landsins átti sér ekki stað fyrr en ég var komin á þrítugsaldur. Það er ekki hægt að skapa svona kerfi án þess að valda gríðarlegum skaða. Ofbeldið var yfir og allt um kring.“ Ein þeirra upplifana sem höfðu hvað sterkust áhrif á Yaël var þegar hún kom út úr leikhúsi með foreldrum sínum, þá fimm ára gömul, og kom auga á reykjarbólstra við sjóndeildarhringinn. Hún spurði þau hvað væri á seyði og þau sögðu henni frá uppreisninni í Soweto sem átti sér þá stað aðeins tíu kílómetrum frá leikhúsinu þar sem fjölskyldan hafði skemmt sér yfir söngleiknum um munaðarleysingjann Annie. „Mörghundruð skólabörn voru myrt með byssukúlum lögreglunnar á meðan ég sat í leikhúsinu, þar sem aðeins hvítum var hleypt inn, og horfði á huggulegan söngleik. Þetta skók mig illilega.“

Yaël segir að alþekkt sé að leikstjórar og annað listafólk dragist sífellt að sömu sögunni og finni nýjar leiðir til að koma henni til skila. „Uppvöxtur minn í afar óréttlátu þjóðfélagi mótaði sýn mína á heiminn, þá er ég ekki að tala um vitsmunalegu afstöðuna heldur þá reynslu að verða vitni að gríðarlegum þjáningum allt í kringum mig og, það sem meira er, sjá hvernig sinnuleysið verður það afl sem hjálpar valdhöfunum. Það er nefnilega hægt að telja fólki trú um að þjáningar annarra séu eðlilegar.“ Drifkraftur leikstjórans í listsköpun hefur frá upphafi verið að vinna gegn doða og sinnuleysi.

Sem leikstjóri og leikskáld vakti Yaël upphaflega athygli fyrir verk er fjölluðu um misrétti og kerfisbundið ofbeldi gegn svörtu fólki í Suður-Afríku. Á unglingsárunum hafði hún uppgötvað og sótt sér innblástur til The Market Theatre í Jóhannesarborg þar sem hjarta hins pólitíska leikhúss sló á þeim tíma. Hún gerði sér þar grein fyrir því hvers leikhúsformið væri megnugt. „Leikhúsið var sannkallað ljós í myrkrinu og mér fannst það eini staðurinn þar sem ég fékk að heyra sannleikann.“ Hún ákvað að í framtíðinni myndi hún búa til leikhús sem segði sannleikann. „Sem fullorðin manneskja hef ég áttað mig á því hvað sannleikur er vafasamt hugtak, en það er til leikhús sem svæfir fólk og leikhús sem vekur fólk; ég vil búa til leikhús sem vekur fólk. Allar sögur eru pólitískar í eðli sínu.“

Yaël fer á flug þegar hún ræðir um pólitíkina í bókum Elenu Ferrante. „Það er svo magnaður kraftur í þeim – þær smjúga inn í mann og eru femínískar og pólítískar á svo margbrotinn hátt. Róttæknin felst í því hvernig líf kvenna er gert að þungamiðju og á þennan merkilega óhetjulega hátt; með því að fjalla um vináttu kvennanna tveggja. Slík vinátta er sjaldan í brennipunkti nema þá að karlmaður komi á endanum til bjargar eða eitthvað í þeim dúr. Bækurnar stokka upp í manni á svo lúmskan hátt, breyta hugmyndum manns um það hvaða sögur má segja.“ Eins og fjölmargir lesendur hvarf Yaël algjörlega inn í heim bókanna. „Maður verður háður þeim, vill meira og meira. Þegar ég lokaði fjórðu bókinni var ég sorgmædd yfir því að þær væru ekki fimm, en kannski var það fyrir bestu – annars hefði ég bara horfið inn í hverja bókina á fætur annarri!“ segir hún og hlær.

Sagan af þeim Lilu, Lenú og fólkinu úr hverfinu þeirra spannar marga áratugi og sögusviðið er víðfeðmt. Hvernig setur maður slíka sögu á svið? „Sviðsetningin er gríðarlegt ferðalag! Um leið og ég fékk símtalið frá Íslandi fóru myndir að kvikna í huga mér en þannig byrjar alltaf leikstjórnarferlið hjá mér. Bækurnar eru uppfullar af sterkum myndum. Ég sá strax fyrir mér litlu telpurnar tvær með brúðurnar sínar, sá fyrir mér Lenú litlu, telpuna úr fortíðinni sem sækir stöðugt á Lenú á efri árum.“ Leikhúsið er að sjálfsögðu allt annars konar listform en bókmenntirnar og í huga Yaël felst styrkur sviðslista einmitt í hinum sérstöku eiginleikum þeirra. „Leikhúsið er ritúal og leikhúsið er draumur. Það lýtur sömu lögmálum og draumur – þegar okkur dreymir göngum við inn í hús og húsið sést ekki í heild sinni en engu að síður skiljum við að það er þarna, við vinnum úr myndinni sjálf.“

Eitt af því sem heillar leikstjórann við verk Elenu Ferrante er hversu margslunginni mynd hún bregður upp af vináttu Lilu og Lenú. „Hún sýnir okkur hversu flókið er að eiga í harðri lífsbaráttu og reyna um leið að mótast sem manneskja innan feðraveldisins.“ Þær Lila og Lenú standa þétt saman en eru þó samtímis hvor um sig að berjast við að koma sér úr erfiðum aðstæðum sem hefta þær sem manneskjur. „Þær elska og styðja hvor aðra, en áfellast líka hvor aðra. Í því liggur fegurðin og nándin í vináttu kvenna, enda er auðvelt að sjá sjálfa sig í báðum aðalpersónunum. Við skömmumst okkar stundum þegar tilfinningar okkar teygja sig út fyrir þann þrönga stakk sem okkur er sniðinn út frá einfölduðum, teiknimyndalegum staðalmyndum. Margar vinkonur mínar tala til dæmis um að vera hvað eftir annað smættaðar niður í klisjuna „reiða, svarta konan“. Og jafnvel þótt við horfum til þeirra þjóðfélagshópa sem hafa mesta svigrúmið er þeim líka bannað að sýna ýmsa eiginleika á borð við mýkt.“ Yaël segir það verkefni sitt og leikhópsins að draga fram þennan margbreytileika manneskjunnar þegar þau setja hinar heillandi sögur Elenu Ferrante á svið fyrir íslenska leikhúsgesti. „Það er pólitískt að leyfa sér að vera óreiðukennd, eins og höfundurinn leyfir vinkonunum tveimur að vera, því þannig er manneskjan í raun og veru.“

Viðtal: Salka Guðmundsdóttir

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími