27. Mar. 2025

Ávörp á alþjóðlegum degi leiklistar


Í dag fögnum við alþjóðlega leiklistardeginum. Samkvæmt hefðinni flytur valinn sviðlistsamanneskja ávarp og að þessu sinni er það Birnir Jón Sigurðasson, sviðshöfundur. Við birtum einnnig ávarp gríska leikstjórans Theodoros Terzopoulos.

Ávarp á alþjóðleikga leiklistardeginum 27 mars. Birnir Jón Sigurðsson

Ekkert er jafn vont og lélegt leikhús. Ekkert er jafn yfirgengilega ömurlegt og slæmt sviðsverk. Að sitja í sal og horfa á líkama sprikla og segja eitthvað sem þú tengir ekki við, sem þú ert ósammála, sem þú nennir ekki. Þú gengur úr salnum, út undir regnþrunginn dimman himininn, þrammar á barinn og rakkar sýninguna í þig, finnur til öll lýsingarorðin um hversu átakanlega hrikaleg upplifunin var – þetta var glatað, þetta var cringe, hvað voru þau eiginlega að pæla þegar þau settu þetta á svið, hvernig dettur þeim í hug að sviðsetja svona klisjur, þetta hefði átt að vera svona, þetta hefði átt að vera hinsegin, það var þetta sem hefði átt að gerast, þetta hér var eini bjarti punkturinn en svo tókst þeim einhvernveginn að klúðra því líka.

Sviðslistir eru ófyrirgefanlegur vettvangur, það ætti að girða leikhúsið af með lögregluborðum
fyrir glæpina sem það hefur framið á athygli fólks. Að fá fólk inn í sal, troða því saman hliði við hlið í þröng sæti. Sitjandi í myrkrinu í lélegri loftræstingu og sumir hósta og sumir skrjáfa og aðrir snúa sér við og sjá hverjir eru í salnum og sumir spjalla og sumir setja símann á silent og aðrir gleyma að setja símann á silent og svo slokkna ljósin og á svið er sett atburðarás.

Kannski hundrað manns saman, kannski fimm hundruð, sem deila þessari reynslu, sem fá að
hverfa inn í fjöldann, upplifa í hópi, í húsi, í myrkri. Orkan, tengslin milli flytjenda á sviðinu, sögur, hreyfingar, tónlist, hljóð, dans. Finna fyrir vandlega handmótuðum tímanum. Finna öldur samkenndar leggjast yfir myrkvaðan salinn, finna sætin hristast þegar hlátrasköllinn kútveltast um bekkina. Finna gæsahúðina seytla niður veggina þegar sannleikurinn smýgur inn í þig á milli línanna. Sjá fullkomnunina þegar allt kemur saman í þessu augnabliki sem næst hvergi annars staðar en í leikhúsi. Þegar allt gengur upp. Þegar augnablikið verður eilíft í huga hóps sem situr í myrkvuðum sal, kannski hundrað saman, kannski fimm hundruð. Standa upp og klappa, því þetta var eitt af þessum einstaklega sjaldgæfu kvöldstundum. Þar sem þú upplifðir hið fullkomna andartak.
Leikhúsið er stofnun sem sérhæfir sig í því, ímyndið ykkur, handverksfólk augnabliksins.

Stundum mætti heyra saumnál detta.
Stundum heyrist snöktið tipla á tánum um salinn.
Stundum er ekki hægt að halda áfram vegna hláturflóðbylgju.
Stundum sprettur fram sjálf fegurðin.
Stundum missa leikarar andlitið.
Stundum gengur allt upp.

Það gerist alls ekki alltaf.
Það gerist eiginlega aldrei.
En það er líka það dýrmætasta sem ég veit.
Og ég fer í leikhús til að safna þessum augnablikum.
Til að slíkt verði til þarf dirfsku og hugrekki.

Bravo á orðstofna í einmitt þeim orðum, dirfsku og hugrekki. Það krefst hugrekkis að setja saman atriði fyrir annað fólk, að standa svo á sviðinu, í búningi, í ljósum, í augliti kannski hundrað manns, kannski fimmhundruð, og geta sig hvergi falið. Það krefst dirfsku að standa á sviði og reyna að setja saman hið fullkomna augnablik, það er óðs manns æði. Það er djarft að dvelja í óvissunni. Að miða út í myrkrið – því að myrkrið er fullt af stjörnum. Í hinu fullkomna andartaki fangarðu eina slíka, bravo.

En það er ekki allt leikhús djarft, það er ekki allt leikhús hugrakkt. Það verðskulda ekki öll sviðsverk bravo.

Ekkert er jafn vont og lélegt leikhús.
En ekkert er jafn undursamlega stórfenglegt og leikhús þar sem flytjendur og áhorfendur, stundum kannski hundrað, stundum kannski fimmhundruð, fanga saman þessa stjörnu. Ganga svo úr salnum, út undir regnþrunginn dimman himininn, fullir af ljósi.

Birnir Jón Sigurðsson er sviðshöfundur sem leggur áherslu á ný, íslensk, frumsamin verk. Hann var hússkáld Borgarleikhússins 2022-23 þar sem hann skrifaði verkið Sýslumaður Dauðans og vinnur nú að enduruppsetningu samsköpunarverksins SUND í Þjóðleikhúsinu. Hann er einn af stofnendum Tóma rýmisins, æfinga- og tilraunarýmis í sviðslistum.

– – – – – – – – – – –

Ávarp á alþjóðlega leiklistardeginum 27 mars. Theodoros Terzopoulos

Getur leikhúsið greint neyðarkall samtíma okkar, örvæntingarhróp fátækra borgara, sem eru læstir inni í frumum sýndarveruleikans, sem skotið hafa rótum í kæfandi einkalífi þeirra? Í heimi tölvustýrðrar tilvistar í alræðiskerfi stjórnunar og kúgunar á öllum sviðum lífsins?

Hefur leikhúsið áhyggjur af vistfræðilegri tortímingu, hlýnun jarðar, gríðarlegum afföllum í fjölbreytileika lífríkisins, mengun sjávar, bráðnandi heimskautaís, auknum skógareldum og öfgakenndu veðri? Getur leikhúsið orðið virkur hluti vistkerfi? Leikhúsið hefur fylgst með afleiðingum mannlegra athafna á móður jörð í langan tíma, en það á erfitt með að bregðast við þeim.

Hefur leikhúsið áhyggjur af andlegu ástandi mannkyns eins og það er að þróast á 21. öldinni, þar sem fólki er stjórnað af pólitískum og efnahagslegum hagsmunum, netmiðlum og skoðanamyndandi netfyrirtækjum? Þar sem samfélagsmiðlar, eins mikið og þeir auðvelda lífið, mynda örugga fjarlægð í samskiptum við aðra? Hugsanir okkar og athafnir eru mengaðar víðtækum ótta við aðra sem eru öðruvísi eða framandi.
Getur leikhúsið þjónað sem rannsóknarstofa samlífis fjölbreytileikans, án þess að meðtaka blæðandi áfallastreitu?

Áfallastreitan skorar á okkur að endurgera goðsögnina sem Heiner Müller orðaði: „Goðsögnin er aflgjafi, vél sem unnt er að tengja aðrar margvíslegar vélar við. Hún gefur orku þar til vaxandi orkumagnið sprengir menningarsviðið.“ Ég myndi bæta við velli villimennskunnar.
Geta kastljós leikhússins lýst upp félagsleg áföll í stað þess að varpa misvísandi ljósi á sjálft sig?
Spurningar án fullnaðarsvara, því leikhús er til og mun lifa áfram, þökk sé spurningum sem enn er ósvarað.
Spurningar sem Díónýsos varpaði fram þegar hann fór um fæðingarstað sinn, leiksvið hins forna leikhúss, og hélt áfram þöglum flótta sínum um stríðshrjáð landsvæði, á leiklistardeginum þetta árið.

Horfum í augu Dýonísusar, afkvæmis Seifs og Semelu, sem fæddist tvisvar, horfum í augun á þessum guði leiklistar og goðsagna sem sameinar fortíð, nútíð og framtíð, holdgervings reikandi sjálfsmyndar, konu og karls, reiði og gæsku, guðs og dýrs sem er á mörkum vitfirringar og skynsemi, reglu og glundroða, línudansari á mörkum lífs og dauða.
Díónýsos varpar fram grundvallarspurningu tilvistarinnar: „Um hvað snýst þetta allt saman?“ Spurning sem manar skapandi fólk til dýpri rannsóknar á rótum goðsagna og margs kyns víddum lífsgátunnar.
Okkur sárvantar nýtt frásagnarform, sem miðar að því að rækta minnið og móta nýja siðferðilega og pólitíska ábyrgð, til að komast frá margslungnu einræði „myrkra miðalda“ samtímans

Theodoros Terzopoulos er leikhússtjóri, kennari, rithöfundur, stofnandi og listrænn stjórnandi Attis-leikhússins í Aþenu. Formaður alþjóðanefndar leikhúsólympíuleikanna (Theatre Olympics) sem hann stofnaði árið 1994.Hann fæddist í Norður-Grikklandi árið 1947 og lærði leiklist í Aþenu. Frá 1972 til 1976 var hann meistaranemi og aðstoðarmaður við Berliner Ensemble.

Eftir að hann sneri aftur til Grikklands starfaði hann sem forstöðumaður leiklistarskólans í Þessalóníku. Árið 1985 stofnaði hann leikhópinn Attis sem hann hefur stjórnað síðan. Hann var listrænn stjórnandi alþjóðlegra þinga um forna leiklist í Delphi 1985 til 1988. Hann stofnaði ásamt fleirum Alþjóðastofnun Miðjarðarhafsleikhúsa (International Institute for Mediterranean Theatre) og hefur verið formaður grísku nefndar hennar síðan 1991, auk þess að vera forseti alþjóðanefndar leikhúsólympíuleikanna síðan árið 1993.

Hann var einn listrænna stjórnenda hátíða leikhúsólympíuleikanna í Delphi, Shizuoka, Moskvu, Istanbúl, Seúl og Peking. Frá því seint á áttunda áratugnum hefur hann þróað sínar eigin leikhúsaðferðir. Vinnustofur tengdar vinnuaðferðum Terzopoulosar fara fram um allan heim. Sem leikstjóri hefur hann sviðsett forngrísk leikrit, óperur og verk eftir mikilvæga evrópska samtímahöfunda, meðal annars í leikhúsum í Rússlandi, Bandaríkjunum, Kína, Ítalíu, Taívan og Þýskalandi. Hann hefur hlotið ótal alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar. Theodoros Terzopoulos býr í Aþenu.

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum. Við bendum á að spjallið á Fésbókarsíðu Þjóðleikhússins er opið virka daga frá kl. 9 og frá kl. 12 um helgar og fram að sýningu.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími