26. Mar. 2020

Alþjóðlegi leiklistardagurinn – innlent ávarp

Margrét Bjarnadóttir dansari og sviðshöfundur, flutti ávarp í tilefni af Alþjóðlega leiklistardeginum

Þegar leikhúsinu er lýst er oft talað um að það sé aðeins til í núinu. Leiklist og dans eru þau listform sem reiða sig á núið, raungerast þegar leikari eða dansari mætir áhorfanda og við öndum að okkur sama loftinu. Í dag veit aftur á móti heimurinn allur að það er varasamt að anda að sér sama loftinu. Að sitja í myrkvuðum sal, í miklu návígi við annað fólk, í nokkra klukkutíma er í besta falli bannað og í versta falli lífshættulegt. Árið 2020 er Alþjóðlega leiklistardeginum fagnað um allan heim á meðan leikhúsin standa tóm.

Það sem hefur alltaf heillað mig mest við leikhúsið eru áhorfendur sem kaupa miða, taka frá tíma, skipta jafnvel um föt, mæta á svæðið og ganga inn í algjöra óvissu en með von í brjósti og beina síðan óskiptri athygli sinni og einbeitingu að því sem fram fer á sviðinu. Í áhorfandanum birtist eftirvænting, forvitni og örlæti. — Í sameiningu hlaða flytjendur og áhorfendur salinn af orku.

Leiklist getur sýnt okkur hluti sem við höfum sjálf upplifað eða hluti sem aðrir hafa upplifað og við vitum að við munum aldrei í lífinu þurfa að reyna á eigin skinni – eða eitthvað sem við gætum mögulega átt eftir að ganga í gegnum síðar. Dans getur sýnt okkur eitthvað sem við vissum kannski ekki að byggi innra með okkur. – Eitthvað sem erfitt er að útskýra með orðum og verður ekki skilið með heilanum. Hvort tveggja, leiklistin og dansinn, eiga rætur í fórnum og fornum helgisiðum og e.t.v. er það þess vegna sem við förum í leikhús – af því að leikhúsið felur enn í sér möguleikann á tilfinningalegri útrás og hreinsun. Þegar vel tekst til þá bræðir leikhúsið íshelluna innan í okkur eins og Franz Kafka orðaði það – brýtur frosin úthöfin innra með okkur með exi – þannig að frumur sem legið hafa í dvala vakna á ný.

En það er sannarlega ekki alltaf gaman í leikhúsi. Leikhúsinu getur líka fylgt leiði sem þegar verst – eða best – lætur, getur látið mann ferðast út úr líkamanum. Rannsóknir benda til þess að manninum hafi aldrei leiðst jafn mikið eins og undanfarin ár. Á móti kemur að flóttaleiðirnar hafa aldrei verið fleiri. Undir eins og leiðinn birtist grípum við til allra þeirra tækja og tóla sem í boði eru til að dreifa athyglinni; við erum á stöðugum hlaupum undan leiðanum og teljum okkur jafnvel trú um að okkur leiðist bara alls ekki neitt. Við þurfum því æ sjaldnar að sitja með leiðanum, hlusta á hann og heyra hvað hann hefur að segja okkur. Það er ekkert mál að labba út í miðri bíósýningu, ganga fram hjá myndlistarverki eða leggja frá sér bókina. Raunar er leikhúsið einn af fáum stöðum sem eftir eru í samfélagi okkar þar sem við getum raunverulega upplifað leiða, ótrufluð, í nokkra klukkutíma. Það er ótrúlega mikið vesen að ætla út í miðri leiksýningu … að klöngrast fram hjá sætaröðinni í rökkrinu, láta aðra standa upp fyrir sér og vekja á sér óþarfa og neikvæða athygli sem truflar bæði fólkið á sviðinu og í salnum.

En þegar leiðinn læðist að okkur og engin flóttaleið er í boði er eins og tilvist okkar sé stungið í samband við magnara. Og þá er ekki annað hægt en að leggja við hlustir.
Þetta er dýrmætt á okkar dögum. Leiðinn er mikilvægt afl, liggur mér við að segja. Afl sem má beisla og nýta til góðs. Leiði er ekki neikvæð tilfinning; það er ekkert rangt við að leiðast. Leiði er bara ástand og hann felur gjarnan í sér gagnlegar vísbendingar. Hann er mikilvæg tilvistarleg reynsla sem býr til pláss fyrir íhugun og endurskoðun. Það eru tækifæri í leiðanum, tækifæri til umbreytinga. Leiði er lognið á undan sköpun og húmor.

Einn af mörgum töfrum leikhússins er rýmið sem það opnar í hugum áhorfenda. Hvort sem sýningin vekur hlátur, grátur, reiði eða leiða þá komum við út reynslunni ríkari, vegna þess að leikhúsið hægir á tímanum og býr til pláss. Nú er þetta löngu farið að hljóma eins og ég sé einhver sérfræðingur í leiða – það er ég alls ekki – en ég get þó sagt að með honum hef ég átt mörg af mínum gjöfulustu og fyndnustu augnablikum. Á þessum ótrúlegu tímum sem við lifum, hef ég tekið eftir því að fyrir utan áhyggjur af kórónaveirunni og afleiðingum hennar hefur fólk haft töluverðar áhyggjur af því að því muni leiðast í sóttkvínni. – Á tímabili mátti vart á milli sjá hvort fólk óttaðist meira, veiruna eða leiðann.

Það er eins og við séum á risastórri leiksýningu – þeirri fjölmennustu í sögunni. Og rétt eins og í leikhúsinu er engin flóttaleið. Það eru allir í heiminum með hugann við það sama. Hver og einn speglar sig í aðstæðum og fréttum en jafnframt er komið gat á frosna íshelluna hið innra og nú sem aldrei fyrr leita tilfinningar og hugsanir sem legið hafa í dvala upp á yfirborðið. Við vitum nú þegar að við munum ekki ganga söm út af þessari leiksýningu.

Ég stend hér á auðu sviði fyrir framan mörghundruð auð sæti. Um allan heim; milljónir auðra sæta. Nú gefst tóm til þess að velta upp spurningunni: hvers vegna leikhús? Þegar við stígum út úr þessu tímabili munum við sjá betur hvers við söknuðum. Hvað viljum við taka með okkur og hvað skiljum við eftir? Eins og staðan er núna bjóða öll auðu svið heimsins ekki upp á neitt – nema endalausa möguleika.

Margrét Bjarnadóttir, danshöfundur

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími