/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Vincent Kári van der Valk

Leikari
/

Vincent Kári van der Valk ólst upp á Íslandi, í Hollandi og Hong Kong og útskrifaðist úr leiklistarakademíunni í Maastricht í Hollandi 2010. Hann hefur leikið fjölda hlutverka hjá virtum leikhúsum í Hollandi, Belgíu og Þýskalandi, í sjónvarpi og í kvikmyndum, og fengist við leikstjórn og skrifað leikrit og sjónvarps- og kvikmyndahandrit. Tvö leikrita hans hafa komið út á bók, Immens og En zo zou het een nooit meer het ander zijn. Hann lék m.a. titilhlutverkin í Platonov og Caligula hjá Theater Utrecht. Hann lék m.a. í sjónvarpsseríunum KLEM og Dit zijn wij og unglingaþáttunum Zeven kleine criminelen sem hlaut Gyllta kálfinn. Hann hlaut m.a. Arlecchino verðlaunin fyrir leik í Englum í Ameríku og leikritunarverðlaunin Toneelschrijprijs fyrir leikrit sitt Immens. Hann var tilnefndur til Gyllta kálfsins fyrir leik í kvikmyndunum Gluckauf og Nocturne.

Vincent Kári van der Valk leikur í Sjö ævintýrum um skömm í Þjóðleikhúsinu í vetur.

 

Nánar um feril:

Vincent Kári ólst upp á Íslandi til sex ára aldurs en þá flutti hann með fjölskyldu sinni til Arnhem í Hollandi. Hann lauk framhaldsskólanámi í Li Po Chun United World College of Hong Kong. Hann nam leiklist í eitt ár við leiklistarskólann Circle in the Square í New York, en þá var honum veitt innganga í hina virtu leiklistarakademíu í Maastricht Hollandi (Toneelacademie Maastrich). Þaðan útskrifaðist hann sem leikari árið 2010.

Vincent Kári hefur leikið í þjóðleikhúsinu NTGent í Belgíu sem er nú undir forystu Milo Rau, í Þjóðleikhúsi Hollands, hjá Toneelgroep Oostpool, Theater Utrecht, Toneelschuur Producties og víðar. Þá kom hann fram með Berlínarleikhópnum Andcompany&Co í Þýskalandi.

Á vordögum 2018 lék hann hlutverk Platonovs í samnefndu leikriti Tjékofs hjá Theater Utrecht en ári síðar fór hann með titilhlutverkið í Caligula eftir Albert Camus einnig hjá Theater Utrecht. Fyrir dauðasenu sína sem Caligula hlaut Vincent Kári Gyllta eiturbikarinn á Nederlands Theater Festival. Ári síðar vann hann hin virtu Arlecchino verðlaun sem besti leikari í aukahlutverki fyrir leik sinn sem Louis í Englum í Ameríku. Vincent Kári samdi og lék verkið Immens á leiklistarhátíðinni Oerol 2019.  Fyrir það hlaut hann hin eftirsóttu leikritunarverðlaun Toneelschrijprijs árið 2020 og var sýningin valin á Theaterfestival Amsterdam.

Vincent Kári hefur einnig fengist við leiklist í sjónvarpi og í kvikmyndum. Hann lék aðalhlutverkið í Gluckauf, kvikmynd Remy van Heugten frá 2014. Hann var tilnefndur til Gouden Kalf (Gyllta kálfsins) sem besti leikari í aðalhutverki fyrir frammistöðu sína í þeirri mynd. Í fyrra var hann aftur tilnefndur til Gyllta kálfsins sem besti leikari í aðalhlutverki í arthouse kvikmyndinni Nocturne (2019).

Vincent Kári lék í hinni vinsælu sjónvarpsseríu KLEM auk þess að hafa komið fram í þáttaseríunum Van God Los, Johan, Ramses, Suspects og TreurTeeVee. Hann lék einnig í unglingaþáttunum Zeven kleine criminelen sem hlaut Gyllta kálfinn sem sería ársins 2019. Síðar það ár lék Vincent Kári aðalhlutverkið í dramaseríunni Dit zijn wij. Undanfarin tvö ár hefur hann leikið í kvikmyndunum Luftmensch, Dreamlife, Poor Boy, Feast, Narcosis og The Man from Rome og í sjónvarpsseríunum Lieve Mama, Doodstil og Deep Shit.

 

Samhliða leiklistinni hefur Vincent Kári samið leikrit fyrir mörg af helstu leikhúsum Hollands. Þá hefur hann skrifað sjónvarpsþátt og þrjú kvikmyndahandrit auk þess að hafa þýtt leikrit Tyrfings Tyrfingssonar úr íslensku. De Nieuwe Toneelbibliotheek hefur gefið tvö af leikverkum Vincents út á bók, Immens (Óborganlegur) og En zo zou het een nooit meer het ander zijn (Og þannig yrði annað aldrei aftur hitt). Það var valið eitt af nýstárlegustu leikhústextum 2020 af Platform Theaterauteurs.

 

Vincent Kári var beðinn um að skrifa fyrir framhaldsþættina Fenix en þeir hlutu Kees Holierhoek handritaverðlaunin árið 2019. Nýlega lagði hann lokahönd á handrit að kvikmyndinni The Wolf, The Fox and The Leopard sem verður framleitt af Lemming Film.

 

Vincent Kári hefur síðastliðin ár kennt leiktúlkun og sett upp útskriftarsýningar með leikaranemum í AHK (Amsterdamse Hogeschool voor de Kunsten), ArtEz í Arnhem og HKU (Hogeschool voor de Kunsten) í Utrecht. Þar að auki hefur hann verið leiðbeinandi fyrir leikstjórnarnema í AHK og sinnt stöðu prófdómara.

 

/

Sýningar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími