Urður Hákonardóttir gerir búninga fyrir Rómeó og Júlíu í Þjóðleikhúsinu ásamt Önnu Rún Tryggvadóttur.
Urður Hákonardóttir á að baki langan feril sem tónlistarkona. Hún var um árabil söngkona og lagahöfundur hljómsveitarinnar Gus Gus. Hún hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og starfað með mörgum virtum tónlistarmönnum víðsvegar um heim, má þar nefna Darren Emerson, Booka Shade, Khan of Finland, Kasper Bjørke og Aaron Carl. Hún hefur starfað sem stílisti og búningahönnuður fyrir tónlistarmyndbönd, leikhús og sjónvarp. Árið 2014 samdi hún og flutti sviðsverkið Óraunveruleikir ásamt Valgerði Rúnarsdóttur og Þyri Huld Árnadóttur sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu og hlutu þær tilnefningu til Grímuverðlauna fyrir. Undanfarið hefur Urður sinnt tónstörfum, þróun og handritsskrifum fyrir sjónvarp og búningahönnun.