/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Tyrfingur Tyrfingsson

/

Þjóðleikhúsið sýnir leikrit Tyrfings Sjö ævintýri um skömm á Stóra sviðinu.

Tyrfingur Tyrfingsson fæddist árið 1987 og ólst upp í Kópavogi. Að loknu stúdentsprófi frá MH brautskráðist hann frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands og stundaði síðan framhaldsnám við Goldsmiths, University of London. Á lokaári við Listaháskólann var Tyrfingur skiptinemi við Janácek Academy of Music and Performing Arts í Tékklandi.

Tyrfingur vakti fyrst athygli fyrir skáldskap sinn með leikverkinu Grande sem var lokaverkefni hans við Listaháskóla Íslands árið 2011. Tveimur árum síðar sýndi Borgarleikhúsið einþáttung hans Skúrinn á sléttunni og árið 2014 var Bláskjár frumsýndur þar í húsi. Í tvö ár var Tyrfingur hússkáld í Borgarleikhúsinu og afrakstur þess var leikritið Auglýsing ársins. Þá voru Kartöfluæturnar frumsýndar í Borgarleikhúsinu haustið 2017 og Helgi Þór rofnar var frumsýnt í ársbyrjun 2020 í Borgarleikhúsinu, í leikstjórn Stefáns Jónssonar.

Tyrfingur hefur sjö sinnum verið tilnefndur til Grímunnar, Íslensku sviðslistaverðlaunanna og tvívegis unnið til þeirra. Helgi Þór rofnar var valið leikrit ársins 2020 og Sjö ævintýri um skömm árið 2022. Þá hlutu Kartöfluæturnar tilnefningu til Menningarverðlauna DV í leiklist. Árið 2016 var Tyrfingur valinn einn af tíu framúrskarandi ungum Íslendingum fyrir skáldskap sinn, af JCI Íslandi.

Leikrit Tyrfings hafa verið þýdd á ítölsku, frönsku, pólsku, þýsku, ensku og hollensku.

Sumarið 2018 var Bláskjá boðið á eina virtustu leiklistarhátíð heims, Festival d’Avignon. Árið eftir var Tyrfingi boðið á La Mousson d’été – Écrire le théâtre d’aujourd’hui sem er hátíð í Pont-à-Mousson, tileinkuð því besta í samtímaleikritun heimsins. Kartöfluæturnar voru fluttar í sviðsettum leiklestri í Théâtre 13 í París í apríl 2019 á hátíðinni Islande, terre de théâtre. Í september 2020 var sama verk flutt á leikhúshátíðinni Short Theatre, Panorama Roma í Rómarborg. Þá æfði og tók leikhúsið Teatr Dramatyczny í Varsjá í Póllandi upp leiklestur af Kartöfluætunum í nóvember 2020 og streymdi sviðsetningunni fyrir Pólverja og pólska Íslendinga. Kartöfluæturnar komu út á bók í Amsterdam 2020. Í febrúar árið 2020 var Helgi Þór rofnar fluttur á ensku á Nordic Spirit hátíðinni í Chicago.

Leikritin Bláskjár, Auglýsing ársins, Kartöfluæturnar og Helgi Þór rofnar hafa komið út á bók í útgáfuröð Borgarleikhússins Leikrit á bók. Maison d’Europe et d’Orient í París gaf út franska þýðingu af Helgi Þór rofnar, Quand Helgi s´est tu. Verkið var valið á opinberan leslista Bureau des Lecteurs hjá Comédie-Française leikhúsinu í París árið 2021.

Tyrfingur skrifaði handritið að kvikmyndinni Villibráð sem frumsýnd verður á þessu ári, í samvinnu við Elsu Maríu Jakobsdóttur sem leikstýrði.

/

Sýningar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími