Ástralski leikstjórinn, leikskáldið og leikarinn Simon Stone (f. 1984) er meðal þekktustu leikhúslistamanna samtímans. Hann er einkum kunnur fyrir sviðsetningar sínar á eigin leikgerðum af sígildum leikverkum, en hann endurskrifar í raun verkin og færir atburðarásina til samtímans. Stone hefur sett upp rómaðar sýningar í virtum leikhúsum og óperuhúsum víða um heim, en meðal þekktustu sýninga hans eru Villiöndin (2011) hjá Belvoir St Theatre í Sydney, Medea (2014) og Ibsen House (2017) hjá Internationaal Theater Amsterdam, Englar í Ameríku (2015) og John Gabriel Borkman (2016) hjá Theater Basel, Yerma (2016) í Young Vic í London og Lucia di Lammermoor (2022) hjá Metropolitan óperunni í New York. Þjóðleikhúsið sýnir leikrit hans Yermu, sem er innblásið af samnefndu leikriti Lorca.
Stone hóf feril sinn með leikhópnum The Hayloft Project í Ástralíu árið 2007, en hópurinn vakti ekki síst athygli fyrir sýningar byggðar á leikverkum eftir Tsjekhov, Seneca, Wedekind og Ibsen. Stone var ráðinn leikstjóri við Belvoir St Theatre í Sydney árið 2011 og leikgerð hans af Villiöndinni eftir Ibsen sem hann setti upp þar var boðið á leiklistarhátíðir í Evrópu, m.a. Ibsenhátíðina í Osló, Wiener Festwochen og Holland Festival. Meðal annarra sviðsetninga Stones í Ástralíu er Baal eftir Brecht hjá Sydney Theatre Company.
Fyrsta uppfærsla Stones í hinum þýskumælandi heimi var ný gerð af Óresteiu Æskílosar í Theater Oberhausen árið 2014. Sama ár var Thyestes, sýning Stones byggð á verki Seneca, sýnd á Theater der Welt-hátíðinni, Holland Festival og hjá Théâtre des Amandiers í Nanterre. Stone var ráðinn leikstjóri við Theater Basel á árunum 2015-2017. Hann hlaut þýsku Nestroy-leiklistarverðlaunin fyrir leikstjórn á leikgerð sinni af John Gabriel Borkman eftir Ibsen, en sýningin var jafnframt kosin besta sýning ársins af gagnrýnendum í tímaritinu Theater heute og var boðið á Berliner Theatertreffen-hátíðina. Uppsetning hans á Englum í Ameríku eftir Kushner í Basel hlaut Nestroy-leiklistarverðlaunin. Hann setti einnig upp leikgerð sína af Þremur systrum eftir Tsjekhov í Basel, en sýningunni var boðið á Berliner Theatertreffen og Stone hlaut verðlaun tímaritsins Theater heute fyrir leikrit árins. Hann setti upp verk sitt Hotel Strindberg, byggt á verkum eftir leikskáldið Strindberg, á vegum Theater Basel og Burgtheater í Vínarborg, en sýningin hlaut tvenn Nestroy-leiklistarverðlaun. Meðal annarra uppsetninga Stones í hinum þýskumælandi heimi eru Eine griechische Trilogie hjá Berliner Ensemble, Pétur Gautur hjá Deutsches Schauspielhaus í Hamborg og Medea í Burgtheater í Vínarborg.
Yerma, sem byggt er á leikriti Lorca og Þjóðleikhúsið sýnir nú, er fyrsta verkið sem Stone leikstýrði í Bretlandi en það var sett upp í Young Vic í London árið 2016 með Billie Piper í aðalhlutverki. Sýningunni var afar vel tekið og þegar hún var enduruppsett árið 2017 hlaut hún Laurence Olivier verðlaunin. Hún var einnig sýnd í New York árið 2018. Stone leikstýrði síðar leikgerð af Medeu Evripídesar og Villiöndinni eftir Ibsen í Barbican í London og leikstýrði einnig nýrri gerð af Fedru eftir Seneca hjá Breska þjóðleikhúsinu.
Simon Stone hefur leikstýrt nokkrum sýningum hjá Internationaal Theater Amsterdam (áður Toneelgroep Amsterdam) frá árinu 2014, Medeu sem var byggð á verki Evripídesar og var síðar enduruppsett í New York og í Odéonleikhúsinu í París, Husbands and Wives eftir Woody Allen, Ibsenhuis sem var byggt á nokkrum af leikritum Ibsens og Flight 49 sem byggt var á verki Hermans Heijerman. Hann setti upp Þríleik hefndarinnar í Odéonleikhúsinu í París, leikrit byggt á verkum eftir Ford, Middleton, Shakespeare og Lope de Vega.
Fyrsta óperuuppfærsla Stones var Die tote Stadt eftir Korngold í Theater Basel. Hann leikstýrði meðal annars óperunum Lé eftir Reimann og Medeu eftir Cherubini á Salzburgarhátíðinni, Lucia di Lammermoor eftir Donizetti hjá Metropolitan óperunni í New York, La traviata eftir Verdi í Parísaróperunni, Wozzeck hjá Vínaróperunni og Mefistofele eftir Boito hjá Teatro dell’Opera di Roma.
Árið 2015 gerði Stone kvikmyndina Dótturina, sem var byggð á Villiöndinni eftir Ibsen og var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto. Önnur kvikmynd hans, The Dig, var frumsýnd hjá Netflix árið 2021 og var tilnefnd til fimm BAFTA-verðlauna.