Salka Valsdóttir hefur starfað við tónlistarsköpun og hljóðvinnslu frá árinu 2013. Hún semur tónlist og söngtexta fyrir Rómeó og Júlíu í Þjóðleikhúsinu, og tekur þátt í sýningunni. Hún hefur unnið með Reykjavíkurdætrum sem rappari, taktsmiður, upptökustjóri og hljóðmaður, en hljómsveitin hefur spilað víða um heim og m.a. hlotið MME verðlaunin og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Í leiksýningu Reykjavíkurdætra í Borgarleikhúsinu kom hún að skrifum og sá um tónlist. Hún starfar með hljómsveitinni Cyber sem hefur m.a. hlotið Kraumsverðlaunin og Íslensku tónlistarverðlaunin. Hún hefur unnið við hljóðblöndun og upptökustjórn í stúdíóum í Berlín og hannað hljóðmynd við leiksýningar í Volksbuhne. Hún stýrði tónlist og hannaði hljóðmynd í The Last Kvöldmáltíð í Tjarnarbíói.
Nánar um feril:
Ég heiti Salka Valsdóttir og hef starfað við tónlistarsköpun á Íslandi frá því árið 2013. Sumar þess árs hóf ég störf með hljómsveitinni ‘Reykjavíkurdætur’ sem hefur verið starfandi síðan og spilað vítt og breitt um Evrópu og Norður Ameríku. Í þessari hljómsveit hef ég gengt hinum ýmsu hlutverkum og má þá helst nefna að ég hef verið rappari, taktsmiður, upptökustjóri og hljóðmaður. Önnur breiðskífa hljómsveitarinnar, Soft Spot, var leyst út 20.Maí 2020 og er það fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar sem ég taktsmíðaði, samdi og útsetti að fullu. Breiðskífan hlaut mikið lof gagnrýnenda og var henni meðal annars hampað af NME þar sem hún hlaut fjórar stjörnur, The Clash og The New York Times. Á þessu ári vinn ég að annarri smáskífu hljómsveitarinnar, en ég kem einnig til með að taktsmíða og útsetja hana. Með Reykjavíkurdætrum hef ég unnið að hlaðvarpi síðustu misseri undir nafninu ‘Daughters of Reykjavík: The Podcast’, en hlaðvarpið var valið eitt af tíu bestu nýju hlaðvarpsþáttum þessa árs af ‘The Guardian’ ásamt því að hljóta frábæra dóma frá tónlistafjölmiðlinum NME. Reykjavíkurdætur hafa hlotið heilmikla viðurkenningu bæði hérlendis og erlendis og hlaut hljómsveitin meðal annars hin virtu Music Moves Europe Forward verðlaunin, eða MME verðlaunin, árið 2019 og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framlag sitt til íslenska tungumálsins sama ár.
Árið 2016 stofnaði ég hljómsveitina Cyber. Með henni hef ég gefið út þrjár smáskífur og tvær breiðskífur sem nefnast VACATION og HORROR, en sú síðar nefnda hlaut Kraumsverðlaunin árið 2017 og var tilnefnd til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í flokki rapptónlistar sama ár. VACATION var valin plata ársins í flokki Rapp og hip hop tónlistar árið 2020 á Íslensku Tónlistarverðlaununum. Seinasta smáskífa hljómsveitarinnar, ‘Bizness’, sem kom út í Nóvember 2018 var einnig tilnefnd til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í flokki rapptónlistar og lagið ‘Hold’ sem lag ársins í sama flokki. ‘Bizness’ var fyrsta verkefnið með hljómsveitinni þar sem ég smíðaði alla taktanna frá grunni og gerði það hana að fyrstu rappplötu á Íslandi sem taktsmíðuð var af konu. ‘VACATION’, önnur breiðskífa CYBER, var leyst út þann 7.Ágúst þessa árs við mikið lof gagnrýnenda og aðdáenda hljómsveitarinnar. Á breiðskífunni gengdi ég einnig hlutverki taktsmiðs og útsetjara ásamt því að hafa samið alla texta henar til móts við Jóhönnu Rakeli Jónasdóttur.
Um haustið 2016 hóf ég störf í hljóðdeild Borgarleikhússins og starfaði þar til ársins 2018 á Stóra Sviðinu við ýmsar sýningar. Á leikárinu 2016-2017 setti ég einnig upp leiksýningu með Reykjavíkurdætrum á Litla Sviðinu þar sem ég kom að skrifum verksins og sá um alla tónlist sýningarinnar. Ég sótti hljóðtækninám Stúdíó Sýrlands og Tækniskólans þar sem ég útskrifaðist með Diplómu árið 2017 og notendagráðu í Pro Tools. Frá árinu 2017-2020 starfaði ég við hljóðblöndum og sem upptökustjóri í Kaiku Studios í Berlín þar sem vann með alþjóðlegum listamönnum á borð við Tune Yards, Bladee, Yves Tumor og fleirum. Ég tók einnig upp, hljóðblandaði og pródúseraði nýútgefna plötu Special-K, Lunatic thirST, en með henni hef ég einnig starfað sem bassaleikari seinustu tvö árin.
Í Júní þárið 2020 stofnaði ég, ásamt tveimur Bandarískum samstarfskonum mínum, Real Surreal Studios í Berlín. Real Surreal er upptökuver rekið eingöngu af kvenkyns hljóðmönnum og er meðal annars ætlað til þess að gefa ungum hljóðkonum færi á að dýpka þekkingu sína á hljóði í ókarllægu og óögrandi umhverfi.
Frá árinu 2018 til 2020 starfaði ég í leikhúsinu Volksbuhne í Berlín þar sem ég hljóðmyndahannaði sýningar á borð við Eine Odyssee og Die Orestie eftir Þorleif Örn Arnarsson, Germania eftir Claudiu Bauer og fjölda verka á smærri sviðum hússins. Í mars 2021 hljóðmyndahannaði ég og tónlistarstýrði verkinu The Last Kvöldmáltíð eftir Kolfinnu Nikulásdóttur sem frumsýnt var í Tjarnarbíó.
Verðlaun: Kraumsverðlaunin 2017 fyrir breiðskífuna HORROR. Íslensku Tónlistarverðlaunin árið 2020 fyrir plötuna VACATION. Tíu tilnenfningar til Íslensku Tónlistarverðlaunanna fyrir fluting, plötu og lag ársins með CYBER og Reykjavíkurdætrum. Music Moves Europe Forward eða Evrópsku MME verðlaunin árið 2019 á Eurosonic með Reykjavíkurdætrum. Reykjavíkurdætur hlutu verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu.