/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Kristbjörg Kjeld

Leikari
/

Kristbjörg Kjeld

Kristbjörg Kjeld útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1958 og hefur leikið fjölda burðarhlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur, leikhópum og í kvikmyndum. Hún hefur hlotið margvíslegan heiður fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar, s.s. heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands 2014 og heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV 2017. Hún var borgarlistamaður Reykjavíkur 2010. Hún hlaut Grímuna fyrir Jónsmessunótt, Afmælisveisluna og Hænuungana og var tilnefnd fyrir Húsið, Halta Billa, Mýrarljós, Heddu Gabler og Svartan hund prestsins. Hún hlaut Menningarverðlaun DV fyrir Taktu lagið Lóa, Edduverðlaunin fyrir Mömmu Gógó, Kaldaljós og Mávahlátur og Polar Lights verðlaunin fyrir Mömmu Gógó.

Kristbjörg Kjeld leikur í Sjö ævintýrum um skömm í Þjóðleikhúsinu í vetur.

 

Nánar um feril:

Kristbjörg Kjeld útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1958 og hefur leikið fjölda burðarhlutverka hjá Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur, leikhópum og í kvikmyndum. Kristbjörg lék sitt fyrsta hlutverk hér í Þjóðleikhúsinu á lokaárinu í skólanum, Katrínu í Horft af brúnni. Sama ár lék hún titilhlutverkið í Dagbók Önnu Frank og starfaði síðan um árabil við Þjóðleikhúsið.

Af minnisstæðum hlutverkum Kristbjargar í Þjóðleikhúsinu má nefna Alison í Horfðu reiður um öxl, Ragnheiði Brynjólfsdóttur í Í Skálholti, Ingunni í Pétri Gaut, Barblin í Andorra, Annie Sullivan í Kraftaverkinu, Mrs. Martin í Sköllóttu söngkonunni, Steinunni í Galdra-Lofti, Víólu í Þrettándakvöldi, Normu í Vér morðingjar, Tzeitel í Fiðlaranum á þakinu, Hildu Wangel í Sólness byggingarmeistara, Steinunni í Svartfugli, titilhlutverkið í Maríu Stúart, Ikutak í Inuk, Góneríl í Lé konungi, Donu Leocadiu Zorilla de Weiss í Ef skynsemin blundar, Ingunni í Stundarfriði og Evu í Garðveislu.

Önnur minnisstæð hlutverk Kristbjargar í Þjóðleikhúsinu á síðari árum eru Vernharða í Heimili Vernhörðu Alba, Ása í Pétri Gaut, Kate Keller í Allir synir mínir, ýmis hlutverk í Stræti, Tobba og Sína í Sönnum sögum af sálarlífi systra, Ingunn í Stakkaskiptum, Malla í Taktu lagið, Lóa, Heiðveig í Krabbasvölunum, Gunnsa í Bjarti og Rauðsmýrarmaddaman í Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki, tengdamóðir Grúsju og fleiri hlutverk í Krítarhringnum í Kákasus, Lillian Dale í Vér morðingjar, kona í Þebu í Antígónu, Esme Allen í Vilja Emmu, Vronskí greifafrú í Önnu Kareninu, frú Ólfer í Strompleiknum Trínu í Halta Billa, Lilja í Græna landinu, Petrovna í Svartri mjólk, frú Kilbride í Mýrarljósi og Franziska Nietzsche og fleiri hlutverk í Dínamíti.

Kristbjörg hefur ennfremur vakið athygli fyrir leik sinn hér á allra síðustu árum í Húsinu, Afmælisveislunni, Svörtum hundi prestsins, Heddu Gabler, Hænuungunum, Utan gátta, Sumardegi, Jónsmessunótt, Karma fyrir fugla, Manni að mínu skapi og Karitas.

Kristbjörg hefur leikstýrt nokkrum sýningum hér við húsið, meðal annars Rympu á ruslahaugnum, Herbergi 213 og Ástarsögu aldarinnar.

Hún var einn af stofnendum leikhópsins Grímu og lék með honum Estelle í Læstum dyrum. Ennfremur fór hún með hlutverk Ranévskaju í Kirsuberjagarðinum hjá Frú Emilíu og Kolbrúnar í Einhver í dyrunum hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Hún lék í Ein komst undan, Er ég mamma mín, Ríkarði III, Fanný og Alexander í Borgarleikhúsinu.

Kristbjörg hefur leikið töluvert í kvikmyndum. Meðal þeirra eru 79 af stöðinni, Punktur, punktur, komma, strik, Í skugga hrafnsins, Kristnihald undir Jökli, Fíaskó, Mávahlátur, Reykjavík Guesthouse, Hafið, Kaldaljós og Mamma Gógó. Nýjasta sjónvarpshlutverk hennar er í Föngum.

Kristbjörg hlaut Grímuna – Íslensku leiklistarverðlaunin fyrir leik sinn í Jónsmessunótt, Afmælisveislunni og Hænuungunum og var tilnefnd til sömu verðlauna fyrir Húsið, Halta Billa, Mýrarljós, Heddu Gabler og Svartan hund prestsins.

Kristbjörg hlaut Menningarverðlaun DV í leiklist fyrir leik sinn í Taktu lagið Lóa. Hún hlaut heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV árið 2017.

Hún hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2007 og var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur 2010. Hún hlaut jafnframt heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands – Grímunnar fyrir áratuga framlag sitt til leiklistar árið 2014.

Kristbjörg hlaut Edduverðlaunin fyrir Mömmu Gógó, Kaldaljós og Mávahlátur. Hún hlaut verðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki á kvikmyndahátíðinni Polar Lights í Múrmansk í Rússlandi fyrir hlutverk sitt í Mömmu Gógó.

 

/

Sýningar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími