Herdís Anna Jónasdóttir, sópransöngkona hefur á ferli sínum hér- og erlendis öðlast reynslu í flutningi á margs konar tónlist, jafnt ljóðasöng sem óperu, kirkjutónlist, söngleikjum og samtímatónlist. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum óperu- og söngleikjauppfærslum, en hún var frá 2013-18 fastráðin við Ríkisleikhúsið í Saarbrücken. Á Íslandi hefur hún tvívegis sungið með Íslensku óperunni, Musettu í La boheme og Víólettu Valery í La traviata. Þá hefur Herdís margsinnis komið fram á tónleikum, s.s. með Kammersveit Reykjavíkur, Barokkbandinu Brák, Caput-hópnum, á ýmsum tónlistarhátíðum, með Saarlensku ríkishljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Færeyja og Sinfóníuhljómsveitinni í Canberra, Ástralíu, sem og með minni kammerhópum og hljóðfæraleikurum, einnig í útvarpi og sjónvarpi.
Herdís Anna hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir söng sinn, m.a. Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir söng ársins 2022, Grímuna árið 2019 og hún var valin Söngkona ársins í Saarbrücken vorið 2016. Fyrsta sólóplata Herdísar Nýir vængir kom út 2021, hvar hún, ásamt Bjarna Frímanni, flytur íslensk sönglög, gömul og ný.

Starfsfólk Þjóðleikhússins
Herdís Anna Jónasdóttir
