/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Gunnar Eiríksson

Leikskáld
/

Gunnar Eiríksson er höfundur leikritsins Kafbátur sem Þjóðleikhúsið sýnir. Hann starfar í Noregi sem leikari, leikskáld, leikstjóri og höfundur tónlistar.

 

Eftirfarandi viðtal var tekið við Gunnar í tengslum við sýninguna á Kafbáti árið 2021:

Viltu segja okkur aðeins frá þér sjálfum

Ég fæddist í Tromsø í Noregi árið 1984. Mamma mín er íslensk og pabbi minn er norskur. Ég á tvö systkini. Þegar ég kom í heiminn töluðu foreldrar mínir íslensku á heimilinu og þess vegna varð móðurmál mitt íslenska, þótt ég sé vanari því að tala norsku í dag. Ég lærði leiklist við háskólann í Norður-Þrændalögum og hef unnið við flest leikhús í Noregi sem leikari, tónskáld, leikskáld og leikstjóri.

Hvernig kviknaði hugmyndin að leikritinu?

Mér hefur alltaf fundist eitthvað heillandi við kafbáta. Hugsaðu þér, að vera einangraður frá heiminum en geta um leið átt kost á því að fara næstum hvert sem maður vill – án þess að nokkur sjái til manns! Börn og fullorðnir sjá yfirleitt kafbáta á mjög ólíkan hátt. Ef maður spyr fullorðna hvað þeim kemur í hug þegar maður segir orðið kafbátur getur maður átt von á því að þeir svari: „Stríð, innilokunarkennd, ótti og myrkur”. En ef maður spyr börn sömu spurningar er líklegt að svörin verði „Ferðalög, möguleikar, rannsóknarleiðangur, að komast þangað sem enginn hefur farið áður!” Leikritið Kafbátur fjallar um föður og dóttur, og hvernig þau sjá heiminn með ólíkum hætti.  Vegna alls þessa langaði mig að fara með söguna niður í undirdjúpin, niður í veröld fulla af möguleikum!

Hvaða hugmyndir langaði þig helst að takast á við í verkinu?

Það er mikið talað um það að börnin okkar muni erfa jörðina og öll vandamálin sem við höfum orsakað. En hvað með börnin sem koma á eftir börnunum okkar? Sagan mín fjallar um stelpu í framtíðinni sem veit ekki hvernig heimurinn leit út áður fyrr, hún veit ekki að það voru til tré og dýr og land. Það eina sem hún þekkir er heimur kafbátsins sem hún og pabbi hennar búa í. Pabbi hennar hefur aldrei sagt henni frá neinu öðru. Og það er að mínu mati mjög mannlegt. Við grípum stundum til þess að segja ósatt til að verja það sem okkur þykir vænt um, þótt það að gera slíkt sé ekki endilega rétt eða fyrir bestu.

Mig langaði líka til að segja sögu sem gerði okkur kleift að horfa á veröldina okkar á nýjan hátt, með augum barnsins, og sjá hversu tilkomumikil hún er. Hafið, skógarnir, fjöllin, mannfólkið. Allt þetta er svo stórkostlegt! Stundum þarf að minna okkur á það.

Hvernig kviknuðu hugmyndirnar að persónunum sem Argentína og pabbi hennar kynnast?

Leikritið fjallar að miklu leyti um tímann. Þann tíma sem er liðinn, þann tíma sem er ókominn. Þess vegna langaði mig að láta fortíðina og framtíðina holdgerast í leikritinu sem persónur. Og hvaða persóna er fortíðin? Jú, það er víkingakonan Steinunn! Trygg og trú, sterk og hugrökk, en stundum líka efagjörn og einstaka sinnum hrædd. Einmitt þannig er fortíðin. Og framtíðin, vélmennisstrákurinn Anon, býr yfir miklum upplýsingum og þekkingu, en hann hefur ekki haft tækifæri til að lifa lífinu fyrr en hann dúkkar allt í einu upp í kafbátnum.

Á því tímabili sem ég skrifaði leikritið varði ég miklum tíma einn með hundinum mínum, tíkinni Sigrid. Á endanum var ég farinn að eiga löng samtöl við hana, og hún svaraði á sinn hátt. Ég skildi allt sem hún sagði, og hún skildi allt sem ég sagði. Það virtist mér að minnsta kosti, og með þessum hætti varð persóna Lúkars hluti af heimi verksins. Einkavinur sem getur bara sagt eitt orð: Búðingur!

Nú sendir þú Þjóðleikhúsinu leikritið Kafbát í kjölfar auglýsingar þar sem Þjóðleikhúsið óskaði eftir nýjum barnaleikritum. Hvernig varð þér við þegar þér var tilkynnt að leikritið þitt hefði verið valið til uppsetningar?

Það var afi minn, Gunnar Már Hauksson, sem sagði mér að Þjóðleikhúsið væri að leita að nýjum leikritum fyrir börn. Þá var ég einmitt að skrifa barnaleikritið Kafbát. Ég ákvað að senda leikhúsinu handritið, en þegar ég frétti að 150 leikrit hefðu verið send inn féllust mér eiginlega hendur og ég reyndi að hugsa ekki meira um þetta. Einn daginn hringdi síminn, ég sá landsnúmerið fyrir Ísland og ályktaði að afi væri að hringja í mig. En það var sannarlega ekki rödd afa míns sem hljómaði í símanum, heldur var þetta Magnús Geir þjóðleikhússtjóri! Það sem eftir var af samtalinu var fyrir mér eins og í „slow motion” og ég man eiginlega ekkert hvað sagt var. Ég man bara að þegar ég var búinn að leggja á hoppaði ég hlæjandi um íbúðina af gleði! Svo hringdi ég í afa minn og sagði honum frá þessu. Hann varð ákaflega stoltur.

Hvað finnst þér skemmtilegast við það að vinna að leiksýningum sem eru ætlaðar börnum?

Það besta við að vinna að leiksýningum fyrir börn er einlægnin. Börn eru einlægustu og hreinskilnustu áhorfendurnir og þess vegna eru þau hinir fullkomnu áhorfendur. Margir sjá fyrir sér að leikhús sé bara það sem gerist á sviðinu, en þannig er það ekki. Því höfum við svo sannarlega fundið fyrir undanfarið. Leikhúsið er það sem á sér stað þegar svið og salur, leikarar og áhorfendur, mætast. Og þegar salurinn er fullur af börnum gerist eitthvað mjög, mjög einstakt. Það er afar mikilvægt að mæta einlægninni úr salnum með einlægni á sviðinu.

/

Sýningar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími